

Einstæð móðir sem sat heima á kvennafrídaginn með veik börn sín segist þakklát framförum síðustu 50 ára og þeim konum sem ruddu brautina. Hún segir þó mikilvægt að dagurinn verði ekki að dyggðaskreytingu fyrir konur.
Kristín Kolbeinsdóttir, móðir, foreldrafræðingur og uppeldisráðgjafi segir í grein sinni að hún hafi vaknað örmagna á föstudagsmorgun. Yngri sonur hennar var búinn að vera lasinn, mikill hiti og eyrnabólga.
„Þennan sama dag var kvennafrí. Vinkonur mínar höfðu reynt að hóa í mig en ég vildi vera heima með strákunum mínum, enda ekki boðlegt að skilja þá eftir heima og enginn að leysa mig af. Það var kuldalegt úti en fallegt veður. Við gerðum hrekkjavökuföndur og horfðum á kvikmynd undir sæng, notaleg stund.“

Vinkonur hennar voru farnar af stað og heyrði húnóminn frá kvennafrísgöngunni heim til sín, dauðlangaði að fara en skyldan kallaði að vera með börnunum meðan story-in fóru að hrannast inn.
„Instagram kynsystra minna fylltist af myndum úr göngunni sem hjá mörgum endaði í Gamla bíó þar sem var skálað með ráðherrum úr Viðreisn. Ég lít út um gluggann og sé tvær konur rogast úr stigaganginum á móti með ryksugur og skúringafötur yfir í fyrirtækjabíl.“
Segist Kristín á sama tíma verið að tala við vin sinn í síma, sá starfar á skrifstofu og höfðu allar samstarfskonur hans gengið út nema ein erlend sem varð eftir og þreif skrifstofuna.
„Á meðan vinkonur mínar, sem gegna flestar stjórnunarstöðum eða reka sitt eigið fyrirtæki skáluðu fyrir kvennafríi sat einstæð móðir heima að huga að veiku barni sínu og konur í einni af láglaunuðustu starfsstéttum landsins sáu um að halda heimilum og vinnustöðum hreinum.“
Kristín segist vera afar þakklát öllum þeim konum sem ruddu brautina og öllum þeim framförum sem við höfum náð á þessum 50 árum. Vert sé að við gleymum aldrei þeirri baráttu sem formæður okkar herjuðu fyrir okkur.
„Mér finnst þó mikilvægt að dagur eins og þessi verði ekki að dyggðaskreytingu fyrir konur sem nú þegar eru komnar langt upp yfir glerþakið, svo langt að þær sjá ekki kynsystur sínar sem enn ryksuga glerbrotin þar fyrir neðan.“