

Salvar er 12 ára nemandi í ónefndum grunnskóla, hann er baldinn og er ítrekað sendur til skólastjórans. Og móðir hans fær nýjan tölvupóst um óþekkt sonarins í skólanum. Besta vinkona Salvars er Guðrún, sem ýmist egnir hann í einhverja nýja vitleysu og púkaskap, eða hann hana.
Þegar skólastjórinn skapstyggi og leiðinlegi (að mati Salvars) Stefán Tryggvason lætur af störfum eftir 48 ár í kennslu er starf hans auglýst. Salvar fær þannig hugmynd og að áeggjan Guðrúnar sækir hann um starfið. Óháð nefnd fer yfir óvenju fáar umsóknir og þar sem láðist að óska eftir kennitölu í umsóknum (og greinilega mynd líka) er Salvar ráðinn! (og það án atvinnuviðtals!?)
Nokkrum dögum seinna er því Salvar orðinn skólastjóri í skólanum auk þess að þurfa að vera nemandi áfram. Hann kemst fljótt að því að það eru ansi margir boltar sem þarf að halda á lofti þegar maður er í svona mörgum hlutverkum og vandi hans í skólanum og lífinu lagast ekkert þó hann sé orðinn yfirmaðurinn.
Svona hefst nýjasta bók barnabókahöfundarins Ævars Þórs Benediktssonar sem löngu er orðinn landsþekktur fyrir bækur sínar og lestrarátak.

Ég veit að ég er alls ekki markhópurinn sem Ævar Þór hafði í huga með bók sinni enda áratugir liðnir síðan ég var 12 ára og ég á ekki börn á þeim aldri, barnabörn, nú eða langömmubörn, svo því sé haldið til haga.
EN ég elskaði Skólastjórann! Ég byrjaði lesturinn og gat bara ekki hætt fyrr en ég var búin með bókina. Sagan er galsafengin þroskasaga fyrir börn og alla sem muna eftir barninu sem þeir voru. Sagan er með léttum en um leið alvarlegum undirtón, smávegis blöndu af lífslexíum fyrir börn án þess að reglur, boð og bönn séu matreidd ofan í þau, af því það vilja börn ekki. Þau þurfa tækifæri og pláss til að uppgötva lífið og leysa verkefni þess sjálf, með þá fullorðnu innan kallfæris til aðstoðar, hjálpar og verndar.
Við lestur bókarinnar sem gerist eins og geta má að mestu í skólanum þá staðsetti ég alla frásögnina í mínum gamla barnaskóla Austurbæjarskóla þar sem ég var í áratug. Og það skal upplýst hér að ég var send til skólastjórans, oftar en einu sinni, en þó alls ekki jafn oft og Salvar var sendur þangað.
Mér varð líka hugsað til skólastjórans, kennaranna minna og gangavarðanna, enginn þeirra var hræðilegur, og samnemenda minna, en saman brölluðum við ýmislegt sem aldrei rataði á netið, enda var þetta löngu fyrir tíma snjallsíma. Sjónvarpið tók sér frí á fimmtudögum og maður spólaði til baka áður en maður skilaði spólunni á vídeóleiguna. Nokkrir af kennurunum mínum eru látnir, aðrir eru vinir mínir á samfélagsmiðlum og ég er í stjórn félagsskapar með einum þeirra. Svona minnkar nú aldursbilið með tímanum. Ég hugsa til þeirra allra með vináttu og virðingu fyrir allan fróðleikinn sem þau reyndu að matreiða ofan í mig, sumt festist og annað fór í gegn og út um hitt eyrað eins og gengur.
Skólastjórinn fékk Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur en bækur hennar eru barnabækur minnar kynslóðar sem hefur lesið þær fyrir sín börn og svo koll af kolli. Ég hef fulla trú á að Ævar Þór sé slíkur höfundur þeirrar kynslóðar sem nú vex úr grasi og að Skólastjórinn muni skemmta börnum um ókomin ár. Mögulega fáum við að sjá framhald af Salvari?
Elín Elísabet Einarsdóttir myndlýsir söguna af stakri snilld og uppátæki Salvars og vina hans stökkva af blaðsíðunum í fang lesandans.
Útgefandi: Mál og Menning, 2025
Innbundin: 313 bls.