Átján ára stúlka varð fyrir ógnandi áreitni eldri manns fyrir utan verslun Nettó við Engihjalla í hádeginu á föstudag. Móðir hennar greinir frá atvikinu í íbúahópi á Facebook og birtir mynd af manninum.
Greinir hún frá því að maðurinn hafi starað á hana við inngang verslunarinnar og síðan segir:
„Eftir að hún er búin að versla fer hún út í bílinn sinn. Þá stendur þessi maður við hurðina farþegasætismegin. Hún fer inni bíl og hann byrjar að banka á rúðuna, hún fattar að setja í lás, sem betur fer útaf hann reyndi allt til að opna með að banka fast á rúðu kippa í handfangið og sparka í hurðina. Hún ákveður að bakka bílnum þá hleypur maðurinn burt! Hún lagði svo bílnum lengra frá og hringdi í lögregluna,“ segir í frásögn móðurinnar og jafnframt að dóttirin hafi hágrátið í símanum er hún hafði samband við móðurina.“
Í umræðum undir færslunni eru leiddar líkur að því að maðurinn eigi við andleg veikindi að stríða en ekkert liggur fyrir um það.