Tilkynnt var um húsbrot í umdæmi Lögreglustöðvar eitt, sem tekur yfir miðborgina, vesturbæ, Seltjarnarnes og austurbæ, en maður hafði hlaupið inn í íbúð og læst sig þar inni á salerni. Neitaði hann að koma út og fara út úr íbúðinni og neyddust íbúar til að kalla til lögreglu. Var hann handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna ástands síns.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglu.
Þar greinir einnig frá því að lögregla var kölluð til í miðborginni vegna manns sem var haldið föstum, en hann var í mjög annarlegu ástandi og hafði dregið upp hníf. Maðurinn var handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna ástands síns en ekkert samband náðist við hann vegna vímu.
Tilkynnt var um líkamsárás en þar hafði maður ráðist á konu sem var að koma úr bíl sínum. Konan hafði þá kallað á hjálp og hafði maðurinn þá hlaupið á brott. Málið er í rannsókn.
Tveir menn voru handteknir, grunaðir um sölu og dreifingu fíkniefna. Við leit í bíl mannanna fundust fíkniefni í sölueiningum, fjármunir og annað sem benti til að mennirnir væru að stunda þessa iðju. Þeir voru vistaðir í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.