Aftakan fór fram á íþróttaleikvangi í Qala-i-Naw sem er höfuðborg Badghis-héraðs í norðvesturhluta landsins. Fór hún fór fram að beiðni ættingja fórnarlambanna og var gerð samkvæmt svonefndu hefndarkerfi Talíbana, að því er fram kemur í frétt Mail Online. Var maðurinn skotinn þrisvar sinnum af ættingja fórnarlambanna.
AFP greinir frá því að þetta hafi verið ellefta opinbera aftakan frá því að Talíbanar tóku aftur við völdum í Afganistan árið 2021.
Matiullah Muttaqi, talsmaður yfirvalda í Badghis-héraði, segir að hinn dæmdi hefði verið fundinn sekur um að hafa myrt hjónin í skotárás og að konan hefði verið komin átta mánuði á leið.
Í frétt Mail Online kemur fram að málið hafi farið í gegnum þrjú dómstig áður en Hibatullah Akhundzada, æðsti leiðtogi Talíbana, veitti endanlegt samþykki fyrir aftökunni.
Í yfirlýsingu hæstaréttar landsins kom fram að fjölskyldu fórnarlambanna hefði verið boðin sátt og fyrirgefning, en hún hefði hafnað því og krafist hefndar samkvæmt sjaríalögum.
Opinberri tilkynningu um aftökuna var dreift víða daginn áður og mættu fjölmargir á völlinn til að horfa á aftökuna.
Opinberar aftökur voru algengar þegar Talibanar réðu landinu á árunum 1996 til 2001 og voru þær oftar en ekki haldnar á íþróttavöllum. Síðasta aftakan fór fram í apríl þegar fjórir menn voru teknir af lífi opinberlega í þremur héruðum á sama degi.