Pistlar Ragnhildur Þórðardóttir sálfræðings, betur þekkt sem Ragga nagli, sem skrifaðir eru á mannamáli njóta mikilla vinsælda á Facebook-síðu hennar. Í þeim nýjasta fjallar Ragga um þá tilhneigingu margra okkar að svara aðspurð að við höfum það bara fínt og allt sé í góðu lagi þrátt fyrir að líða illa og vera alveg að missa marga, ef ekki alla boltana sem við reynum að halda á lofti.
„Nei hæ…. hvernig hefurðu það?“
„Æi bara soldið þreytt(ur), en annars allt í gúddí.“
Hver kannast ekki við að gubba þessum frasa út ósjálfrátt, þrátt fyrir að innra með þér er allskonar annað að grassera en þreyta.
Depurð
Kvíði
Ströggl
Yfirþyrming
Alltof mörg verkefni
Áhyggjur
Sorg
Leiði
Fjárhagskvíði
Óheilbrigt samband við mat
Neikvæð líkamsímynd
Vandamál í hjónabandinu“
Ragga segir að í slíku ástandi gætum við fundið fyrir alls konar tilfinningum:
„Við gætum verið sár, stressuð, sorgmædd, pirruð, leið, döpur, gröm.
Við getum upplifað höfnun, óréttlæti, vanvirðingu, niðurlægingu, viðbjóð og vonbrigði.
Við getum verið afbrýðissöm, einmana, viðkvæm, óörugg og tóm.
Þá lokum við stundum niður.
Axlir síga. Kökkur í hálsi. Hnútur í maga. Sorti fyrir augum,
Verðum fjarlæg. Fáskiptin. Fámál. Eigum erfitt með augnsamband. Erfitt með að tala. Erfitt með að brosa og hlæja.“
Fólk spyrji okkur síðan hvort það sé ekki allt í góðu.
„En Pollýönnu samfélag nútímans þar sem allir og frændi þeirra eru hlæjandi á TikTok og valhoppandi eins og strumparnir. Með Aperol í sumarbústaðnum, vökva túlípana í garðinum, og bleikklædd börn í rennibraut. Þá finnum við okkur knúin til að halda leikritinu gangandi að vera með allt upp á tíu í teskeið.
Ef við látum vita að við séum að upplifa aðrar tilfinningar sem krefjast hlustunar eða aðstoðar er bara vesen og byrði fyrir hina. Og manneskjugeðjarinn innra með okkur öskrar fullum hálsi: Segðu bara að þú sért þreytt(ur)!!!
Tilfinningar eru upplýsingar. Þær segja okkur hvað við þurfum akkúrat á þessari stundu.
Það er í lagi að vera pirruð, frústreruð, einmana og leið.“
Ragga segir slíkar tilfinningar líða hjá hvort sem við reynum að flýja þær, eða bara sitja þær út.
„Hvort sem við hringjum í vinkonu, borðum kex, lesum bók, dönsum eða grátum.
Leyfðu þér að upplifa allt litrófið og líða stundum óþægilega.
Leyfðu þér að láta vita og biðja um aðstoð
Að hunsa tilfinningar gerir þig ekki að Leðurblökumanninum.
Að þekkja tilfinningarnar sínar með réttu nafni átta þig á hvað þú ert að upplifa er mikilvægur hluti af sjálfsvinnu og að setja mörk. Þá geturðu mætt tilfinningunum á réttan hátt og látið vita hvað ef eitthvað þú þarft frá náunganum á þeirri stundu.
En þegar við grátum bregðumst við yfirleitt við með að afsaka okkur. „Sorrý með mig…. er bara eitthvað svo viðkvæm(ur).“
Eða rembumst við að halda aftur af tárunum sem safnar streitu upp í bunkum í skrokknum.
Því grátur er leið líkamans til að losa út kortisól.
Að bæla niður tilfinningaviðbrögð og viðhalda yfirborðskenndri tilfinningastjórnun með að kyngja tárunum rænir þig tækifærinu að upplifa að fullu tilfinningarnar, og þær safnast upp eins og draslið í geymslunni. Skíðaskór og sódastrím…. sorg og reiði.
Mismunandi tilfinningar er merki um að vera mannlegur.
Aðeins Disney fígúrur klæða sig í blúnduslopp sem syngjandi svölur koma með inn um gluggann. Það veltir sér enginn upp úr glimmeri alla daga.“
Ragga hvetur okkur til að vera tilbúin með svar næst þegar einhver spyr hvernig við höfum það:
„Ég er að upplifa tilfinningar eins og ……..“
Tékkaðu reglulega á vinum þínum. Þú veist aldrei hvenær einhver þarf á þér að halda.
Stundum er fólk bara þreytt. En þá getum við spurt af hverju. Ertu að sofa illa? Er eitthvað að halda fyrir þér vöku?
Stundum ef við spyrjum aftur: „Ertu alveg viss um að allt sé ok, ég er allavega hér ef þú þarft á mér að halda. „Það getur oft dimmu í dagsljós breytt fyrir einhvern.“