Danny Guthrie, fyrrum miðjumaður Liverpool og Newcastle, hefur verið ráðinn tæknistjóri knattspyrnuakademíu í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Guthrie, sem er 38 ára gamall, hefur ekki verið mikið í sviðsljósinu síðan hann var lýstur gjaldþrota árið 2020 eftir að hafa ekki greitt vini sínum til baka 100.000 pund sem hann fékk að láni til að kaupa hús.
Guthrie kom til Íslands skömmu síðar og lék með Fram sumarið 2021 þegar liðið vann Lengjudeildina.
Lánveitandinn, viðskiptamaðurinn Chris Heath, sagði að hann hefði verið mjög svekktur með viðskiptin: „Ég hafði enga aðra valkosti en að lýsa hann gjaldþrota.“
Húsið var síðar selt en lánið aldrei greitt. Guthrie samþykkti sex ára gjaldþrotssamning sem gildir til maí 2028.
Á sínum tíma var Guthrie talinn með efnilegustu leikmönnum Englands, eftir að hafa komið upp í gegnum unglingastarf bæði hjá Manchester United og Liverpool.
Newcastle keypti hann frá Liverpool árið 2008 fyrir 2,5 milljónir punda, þar sem hann lék í nokkur ár áður en ferillinn tók að halla undan fæti.
Seinni hluti ferilsins fór fram hjá minna þekktum félögum þar á meðal í Indónesíu og Íslandi áður en hann lagði skóna á hilluna og fékk gjaldþrotssamning.