Kristján Óli Sigurðsson fyrrum kantmaður Breiðabliks boðar hallarbyltingu í félaginu á næsta aðalfundi félagsins sem fram fer í upphafi nýs árs. Kristján ræddi málið í Þungavigtinni í dag.
Mikil umræða hefur átt sér stað um stöðuna hjá Breiðabliks vegna gengi karlaliðsins undanfarnar vikur í Bestu deild karla. Kristján segir breytinga þörf.
Þrátt fyrir slæmt gengi í deildinni hefur Breiðablik tryggt sér sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar sem færir félaginu 500 milljónir í vasann.
„Maður heyrir sögur að nú eftir áramót þegar aðalfundur fer fram að það eigi að vera hallarbylting og sópa allri stjórninni út,“ sagði Ríkharð Óskar Guðnason í Þungavigtinni.
Kristján segir að reynt hafi verið að gera breytingar í fyrra en framboðin dæmd ógild. Þá ætluðu fyrrum leikmenn félagsins að koma sér í stjórnina, þeir gætu reynt aftur á næsta ári.
„Það var reynt í fyrra en framboðum var skilað inn einni mínútu of seint, því var framboðið ekki tekið gilt. Það verður blásið í herlúðra að gera þetta af viti,“ segir Kristján um málið.
Breiðablik er í hættu á að ná ekki Evrópusæti í karlaboltanum en kvennalið félagsins varð bikarmeistari á dögunum og er á barmi þess að verða Íslandsmeistari.
„Þetta verður fólk sem þekkir fótbolta en ekki viðskiptamenn, það verður auðvelt að spyrna sér af botninum. Breiðablik var síðast ekki í Evrópu árið 2018, þeir hafa átt öruggt sæti þar síðustu ár,“ segir Kristján Óli.