fbpx
Sunnudagur 07.september 2025
Fókus

„Þessi saga nístir mann auðvitað inn að beini“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 7. september 2025 11:30

Sverrir Norland. Mynd: David Konecny.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sverrir Norland er svo sannarlega maður margra hatta. Sverrir er rithöfundur, þýðandi og eigandi bókaútgáfunnar AM forlag, hann er einnig fyrirlesari og einn þeirra sem standa að baki bókmenntahátíðinni Iceland Noir, sem fer fram í tólfta sinn í nóvember í Reykjavík. Sverrir hefur haldið úti hlaðvarpinu Bókahúsið, verið bókagagnrýnandi í Kiljunni og stjórnað þættinum Upp á nýtt á Rás 1.

Sverrir er með BA gráðu í lögfræði og ritlist frá Háskóla Íslands og mastersgráðu í skapandi skrifum frá Middlesex University í Lundúnum. Hann hefur haldið fyrirlestra í fjölmörgum fyrirtækjum og flutt fyrirlestra og sagnasmiðjur í grunn- og framhaldsskólum.

Sverrir starfar einnig sem sérfræðingur í samskiptum hjá Arion banka. Síðast en alls ekki síst er hann tveggja barna faðir og lesandi DV.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

The First Stone eftir Helen Garner. Hún er sá höfundur sem ég les mest í augnablikinu. Hún er áströlsk, fædd árið 1942 og ótrúlega lagin í að veiða hversdaginn í orðanet, lýsa hlutum og fólki svo að það stendur ljóslifandi fyrir hugsjónum. Veröldin er líka flókin í meðförum Garner sem dregur fram hversu marglaga og mótsagnakennd við erum. 

The First Stone var mjög umdeild þegar hún kom út árið 1995 í Ástralíu. Bókin byggist á sönnum atvikum: Tvær ungar konur ásaka eldri karlmann, háttsettan innan rótgróinnar og virðulegrar menntastofnunar, um kynferðislegt áreiti. Garner tekur eiginlega aldrei afstöðu með neinum og því reitti hún marga til reiði, jafnt femínista sem aðra. Góðar bókmenntir gerast á gráa svæðinu.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

This House of Grief, sömuleiðis eftir Garner. Þar segir frá föður þriggja drengja sem skilur við barnsmóðurina (hún hendir honum út og tekur skömmu síðar saman við annan mann). Dag einn ekur faðirinn út af veginum með drengina þrjá sem drukkna allir. Spurningin er: Var þetta slys eða gerði maðurinn það viljandi, til að ná sér niðri á móður drengjanna? Þessi saga nístir mann auðvitað inn að beini – og Garner er svo flinkur höfundur að hún nær að draga fram ótal ólíkar hliðar á þessum harmleik.

Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Fæstar bækur standast auðvitað væntingar enda eru þær skrifaðar af misgölluðu mannfólki. Ég klára reyndar kannski eina af hverjum tíu bókum sem ég byrja að lesa. Ég nenni ekki að lesa verk sem höfða ekki sterkt til mín.

Annars er ég fljótur að gleyma því sem er leiðinlegt og finnst skemmtilegra að hampa listaverkum en rífa þau niður – hér kemur bara ekkert upp í hugann, satt að segja. 

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Gott að lesa snemma á morgnana (en oft ekki tími: koma þarf krökkunum í skólann og svo framvegis) en þá er reyndar líka besti tíminn til að skrifa. Svo er gott að lesa skömmu eftir líkamleg átök, að liggja þægilega þreyttur uppi í sófa. Eða sitja úti á svölum á meðan sólin sest, með bjór eða rauðvínsglas.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf/ur sem barn?

Já, það var talsvert lesið fyrir mig sem barn. Man sérstaklega góðar stundir uppi í sumarbústað þar sem pabbi las gamla klassík fyrir okkur bræður mína, Fimmbækurnar og þess háttar.

Af einhverjum ástæðum á ég svo mjög sterkar minningar af því að lesa Kapalgátuna eftir Jostein Gaardner og hugsa enn reglulega til þeirrar bókar. Það hefur hvarflað að mér á fullorðinsárum að rifja upp kynnin við þá sögu en ég þori það varla, af ótta við að hún standist ekki væntingar.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Ég er með margar í bunka heima sem ég hlakka til að komast í, hef ekki haft alveg nógan lestrartíma upp á síðkastið, því miður. Playground eftir Richard Powers, Dúkkuverksmiðjuna eftir Júlíu Margréti vinkonu mína, Motherhood eftir Sheilu Heti … Listinn heldur endalaust áfram.

Ég er samt spenntastur fyrir því að halda áfram með nýja skáldsagnabálkinn eftir hinn norska Karl Ove Knausgaard sem er að mínu mati einn áhugaverðasti núlifandi höfundurinn og sannarlega á meðal þeirra sem ég hef hvað mest gaman af því að lesa. Min kamp-bækurnar hans voru frábærar, sex sjálfsævisöguleg verk, og síðustu ár hefur hann svo gefið út skáldsögur sem allar gerast í sömu veröld og/eða lýsa sömu persónum. Ég gleypti þá fyrstu, Morgunstjörnuna, í mig og er kominn með næstu tvær. Sú fjórða, Næturskólinn, á svo að vera eitt hans besta verk fram til þessa. Synd að þetta komi ekki líka út á íslensku en það væri auðvitað ærið verk að þýða þetta allt.

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Ég er reyndar ekki mikið í því að lesa bækur „aftur og aftur“ en á mér þó auðvitað marga uppáhaldshöfunda og fletti í þeim þegar ég þarf að sækja mér styrk eða fá innblástur. Það væri kannski frekar að maður ræki nefið aftur og aftur inn í sömu ljóðabækurnar eða dagbækur rithöfunda. Nýútgefið úrval úr dagbókum fyrrnefndrar Helen Garner, How to End a Story, er með því betra sem ég hef lesið. Le Mausolée des amants, Journal 1976-1991 eftir Hervé Guibert hafði ótrúleg áhrif á mig á sínum tíma og ég blaða oft í henni. Ég hef lesið Rigningu í nóvember eftir Auði Övu þrisvar eða fjórum sinnum. Sömuleiðis mörg ljóða Charles Bukowski, sem er enn í miklu uppáhaldi hjá mér.

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Já, já, ég held upp á margt, samanber fyrrnefndan Bukowski. Af íslenskum höfundum höfðu Auður Ava og Gyrðir Elíasson mikil áhrif á mig hér á árum áður og sömuleiðis Thor Vilhjálmsson, frændi minn. Og auðvitað Laxness. Og Ásta Sigurðar. Æ, þetta er endalaus listir. Flestir uppáhalds eru þó erlendir og ég hef ýmist lesið þá á ensku eða frönsku (þó að það sé ekki alltaf móðurmál þeirra). Til að mynda er hinn sílenski Roberto Bolano í algjöru uppáhaldi og sama gildir um César Aira, sem er argentískur höfundur – eiginlega þyrfti ég að læra spænsku, það er svo margt, sem upprunnið er á því tungumáli, sem hefur heillað mig í áranna rás. Aðrir væru – úff, nennirðu að hlusta á þetta nafnatog? – Wislawa Szymborska, Rachel Cusk, José Saramago, Richard Brautigan, Stephen King, Paul Auster, Tove Jansson, William Saroyan, John Cheever, Chekhov, Tolstoy, Dostojevskí … og hún Patricia Highsmith auðvitað, höfundur The Talented Mr. Ripley og fleiri snilldarverka. Ég hefði kannski ekki viljað fá hana í matarboð – hún var vön að lauma lifandi sniglum í kjöltu sessunauta sinna – en bækurnar hennar eru æði. Svo dó hún moldrík í Sviss en var ennþá ótrúlega nísk og notaði vasaljós á kvöldin til að spara rafmagn. Viss klassi yfir því. Rithöfundar eru furðulegt fólk og líklega best að umgangast það sem minnst í eigin persónu og kynnast því bara á síðum bókanna þeirra.

Hvaða bók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Hér væri mér eiginlega tamara að tína til einstaka höfunda frekar en stakar bækur því að oft líður manni líka svolítið eins og höfundarverk hinna bestu sé ein stór bók; skilin á milli verka renna svolítið saman. En Infinite Jest eftir David Foster Wallace var mikill bautasteinn á sínum tíma. Heimsljós eftir Laxness mætti líka vera þarna. Og ég grét þegar ég kláraði Sjálfstætt fólk í annað sinn, þá staddur í ísbúð í Texas. Það var vandræðaleg og falleg stund!

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

Erfitt að segja að allir ættu að lesa eitthvað tiltekið, fólk er svo ólíkt og hjörtu rata í ólík orðanet eftir því hvar hver og einn er staddur í lífinu hverju sinni. Kannski ætti fólk aldrei að lesa bækur? Ég veit það ekki. Horfa bara á sjónvarpið og borða kex, það er líka fínt.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Raunverulegur aldur leikkonunnar kemur aðdáendum verulega á óvart

Raunverulegur aldur leikkonunnar kemur aðdáendum verulega á óvart
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð mynd af dóttur Pink sem stækkar hratt

Sjaldséð mynd af dóttur Pink sem stækkar hratt
Fókus
Fyrir 2 dögum

Stórleikarinn Michael Caine komst að skuggalegu fjölskylduleyndarmáli eftir andlát móður sinnar

Stórleikarinn Michael Caine komst að skuggalegu fjölskylduleyndarmáli eftir andlát móður sinnar
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Loksins búinn að upplifa alvöru frelsi“ – Var fastur í vanlíðan í áraraðir

„Loksins búinn að upplifa alvöru frelsi“ – Var fastur í vanlíðan í áraraðir
Fókus
Fyrir 3 dögum

Áhrifavaldur í bobba vegna þess sem hún leyfði 14 ára dóttur sinni að gera

Áhrifavaldur í bobba vegna þess sem hún leyfði 14 ára dóttur sinni að gera
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sögð ætla að gifta sig í villu Swift á Rhode Island

Sögð ætla að gifta sig í villu Swift á Rhode Island
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kemur núverandi eiginkonu fyrrverandi eiginmannsins til varnar

Kemur núverandi eiginkonu fyrrverandi eiginmannsins til varnar
Fókus
Fyrir 4 dögum

Helena Reynis bjó með Snorra og lætur hann heyra það – „Þú ert svo mikill hræsnari“

Helena Reynis bjó með Snorra og lætur hann heyra það – „Þú ert svo mikill hræsnari“