fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fréttir

Ragnar svarar Þórdísi fullum hálsi: „Ég var alls ekki að hvetja til slíks”

Ritstjórn DV
Mánudaginn 25. ágúst 2025 09:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Töluverð umræða hefur skapast um þau áform Kópavogsbæjar um að leggja fyrir samræmt stöðumat í öllum bekkjum frá fjórða til tíunda bekk.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins og móðir tveggja barna í bænum, skrifaði grein á Vísi á föstudag þar sem hún sagði meðal annars að Ragnar Þór Pétursson, kennari og fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, hefði gengið allt of langt í gagnrýni sinni á Ásdísi Kristjánsdóttur bæjarstjóra Kópavogs og áform bæjaryfirvalda.

Ragnar skrifaði fyrst grein um málið á fimmtudag og svaraði Þórdís honum á föstudag. Ragnar Þór hefur nú svarað Þórdísi í nýrri grein sem birtist á Vísi í morgun.

Sjá einnig: Þórdís Kolbrún sár út í Ragnar:„Ákaflega ógagnlegt og ámælisvert”

Háðslegt orðfæri

Í grein sinni á föstudag sagði Þórdís Kolbrún að Ragnar Þór hefði í skrifum sínum nánast skorað á kennara í Kópavogi að segja upp störfum. Hún kallaði það „ákaflega ógagnlegt og ámælisvert“.

Hún tók fram að í rökstuðningi Ásdísar Kristjánsdóttur bæjarstjóra fyrir aðgerðunum hefði komið fram hörð gagnrýni á stjórnvöld, en jafnframt skilningur á stöðu nemenda, kennara og foreldra.

„Sem íbúi í bænum, með tvö börn á grunnskólaaldri, er ég ákaflega þakklát fyrir þessa ákvörðun og vona að hún geti átt þátt í því að leiðrétta þann kúrs sem skólakerfið okkar er á,“ sagði Þórdís Kolbrún. Hún benti á versnandi árangur íslenskra nemenda í alþjóðlegum mælingum, sem OECD hefur varað við geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir framtíðarvelsæld þjóðarinnar.

Þórdís gagnrýndi einnig tóninn í skrifum Ragnars Þórs og spurði hvort samstarfsvilji áhrifamanna innan kennarastéttarinnar væri raunverulegur þegar þeir beittu háðslegu orðfæri.

Viðvörun um mögulegar afleiðingar

Ragnar Þór hafnar þeirri túlkun Þórdísar að hann hafi hvatt kennara til að segja upp. Hann segir að um hafi verið að ræða viðvörun um mögulegar afleiðingar ef bæjarstjórinn beitti matsferli til að fella dóma yfir skólum og kennurum.

„Ég var alls ekki að hvetja til slíks. Þvert á móti var ég sérstaklega að vara við því að ef bæjarstjórinn færi fram með þeim hætti […] þá hefði það þrennar afleiðingar: að nemendur í vanda yrðu óæskilegir, að námskráin yrði þrengd og að bestu kennararnir misstu trú á yfirboðara sína og færu annað,” segir hann.

Ragnar segir að þetta sé ekki í fyrsta skipti sem íslensk bæjarstjórn þykist hafa fundið töfralausn á vanda skólakerfisins.

„Af einhverjum ástæðum virðast Sjálfstæðismenn vera óvenju ginnkeyptir fyrir slíkum meðulum. Ég veit ekki af hverju og ég skil ekki af hverju. Í sjálfstæðisstefnunni er nefnilega til staðar það sem ég og fleiri telja vera gáfulegustu leiðina til að tækla flókin mál.“

Hann segir að af einhverjum ástæðum virðist forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa misst trú á eigin stefnu þegar kemur að menntun.

„Jafn þversagnarkennt og það er, þá virðist þar ríkja sú hugmynd að menntun hafi það hlutverk að staðla sálir og kroppa. Smíða tannhjól í gangvirki samfélagsins sem öll eru af staðlaðri gerð og stærð. Samræma og sníða af sérkenni. Þessi þversögn er mér fullkomin ráðgáta.“

Enginn ber meiri ábyrgð

Ragnar segir enn fremur að það sé honum hulin ráðgáta að ráðamenn Sjálfstæðisflokksins haldi að þeir komist upp með það mótbárulaust að gera sér upp aðkomu- og minnisleysi að málefnum skólakerfisins.

„Enginn flokkur ber meri pólitíska ábyrgð og enginn flokkur hefur oftar selt almenningi lausnir sem ekki virka. Raunar er ekki nema áratugur síðan flokkurinn ætlaði að innleiða á landsvísu töfralausn sem samræmdar mælingar höfðu staðfest að væru óviðjafnanlegar þegar kom að árangri. Það sem öll vissu, en sögðu ekki upphátt, var að umrædd töfralausn grundvallaðist á umfangsmesta og kerfisbundnasta svindli í töku samræmdra prófa sem sést hefur í sögu íslensks skólakerfis. Allt á vakt Sjálfstæðismanna,” segir hann og bætir við að sú töfralausn hafi fuðrað upp og afleiðingin sé sú sem hún er.

„Það síðasta sem við þurfum á að halda er að forystufólk í Sjálfstæðisflokknum krefji okkur um samstarfsvilja á grundvelli nýtilkomins áhuga forystufólksins á menntamálum. Hann er ekkert merkilegur. En við kæmum mörg hlaupandi til samstarfs ef flokkurinn sýndi með orðum sínum og gjörðum að hann hafi eitthvað lært af því að stýra þjóðarskútunni inn í skerjagarðinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Rússland sagt ramba á barmi bensínkrísu

Rússland sagt ramba á barmi bensínkrísu
Fréttir
Í gær

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs

Mikil reiði eftir að dönsk yfirvöld tóku nýfædda dóttur af grænlenskri móður á grundvelli umdeilds prófs
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald

Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms í Hraðbankamálinu og sakborningur fer í gæsluvarðhald
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband

Póstburðarmaður vekur mikla athygli eftir að þetta náðist á myndband