Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynjafræðingur og baráttukona fyrir réttindum trans fólks, fékk yfir sig skæðadrífu af hatursskilaboðum í kjölfar þess að hún svaraði Snorra Mássyni, þingmanni Miðflokksins, fullum hálsi um helgina.
Frá þessu greinir Ugla í færslu á Facebook og birtir fjölmörg ógeðfelld skilaboð sem beindust að henni.
„Ég legg það nú ekki í vana minn að deila ógeðslegum kommentum, en datt í hug að gefa fólki smá smjörþef af því sem birtist í hvert skipti og trans manneskja réttilega gagnrýnir fordóma.
Ýmist keppast virkir í athugasemdum við að gera lítið úr mér fyrir að vera kona með að kalla mig frekju með yfirgang, vitlausa unga konu, ómögulega eða illa upplýsta (þrátt fyrir að t.d. vera með meistaragráðu í kynjafræði og jafnréttisfræðum). Á hinn bóginn keppast aðrir við að gera lítið úr mér fyrir að vera trans og tala um mig í karlkyni, sem karlpung, búa til uppnefni og þar fram eftir götunum.
Svo eru kommentin sem saka mig um allskonar annarlegar þarfir (sem ég ætla ekki að deila), og komment sem spurja út í kynfærin á mér. Í þetta skiptið fannst honum Sigurði við hæfi að spurja hvort ég væri “undanskorin”,“ skrifar Ugla.
Hún segir það daglegt líf transfólks sem notar samfélagsmiðla eða les fréttir að lesa svona athugasemdir en að orðræðan sé að versna, verða öfgafyllri og hún óttist að hún geti þróast út í eitthvað ennþá hættulegra.
„Þess vegna þurfum við að fordæma þegar manneskjur í áhrifastöðum tala inn í þessa orðræðu, í stað þess að segja hinsegin fólki og samherjum þess að “slappa af”. Fordómar hafa áhrif á líf fólks. Þeir hafa áhrif á líðan fólks og öryggi þeirra í samfélaginu. Þeir hafa áhrif á samskipti við fólk, á vinnustaðnum eða innan fjölskyldu. Þeir eru ástæða þess að hinsegin fólk glímir við hærri tíðni andlegra veikinda – vegna þess að þau eru áreitt, útilokuð og beitt ofbeldi.
Þetta er allt hluti af stærra samhengi, og er það ekki tilviljun að fordómar séu að aukast, og að hatursglæpum sé að fjölga,“ skrifar Ugla.