Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og fyrrverandi þingmaður Samfylkingarinnar, segir að Landsvirkjum ásælist Þjórsárver eins og Rússar Úkraínu. Segir hann Landsvirkjun þrengja að svæðinu með virkjunaráformum í nágrenni þess.
Hann gagnrýnir umhverfisráðherra fyrir afstöðu hans í virkjunarmálum og telur hann vilja setja þrýsting á frekari virkjanir, jafnvel fórna Þjórsáverum vegna mikillar orkuþarfar. Guðmundur segir í pistli á Facebook-síðu sinni:
„Landsvirkjun ásælist Þjórsárver eins og Rússar Úkraínu. Þótt þessi einstæða vin sé vernduð í bak og fyrir og njóti sérstakrar verndar Ramsarsáttmála um verndun votlendis þá heldur fyrirtækið áfram að reyna að þrengja að þessu vatnasvæði, nú síðast með áformum um Kjalölduveitu í Þjórsá nokkrum kílómetrum frá Þjórsárverum. Engu er líkara en að hver kynslóð þurfi að koma þessari stofnun í skilning um að Þjórsárver eru utan seilingar.
Jóhann Páll umhverfisráðherra fer ekki að ráðum verkefnastjórnar rammaáætlunar um það hvaða kostir skuli vera í biðflokki og hverjir í verndarflokki. Hann segist ekki vilja „útiloka neitt“. Það þykja mér slæm skilaboð. Þetta lítur út eins og hann vilji þrýsta á frekari virkjanir, og sé jafnvel til í að íhuga að fórna Þjórsárverum fyrir orkuþörfina óseðjandi. Heldur vildi ég sjá hann senda Landsvirkjun skýr skilaboð um að þau séu ekki í boði.“
Segir Guðmundur að ráðherra eigi að virða það ferli sem fólgið er í rammaáætlunum um virkjunarkosti:
„Umhverfisráðherrann gerði best í að virða ferlið – eins og það var hugsað þegar Samfylkingin átti frumkvæði að því að koma rammaáætlunum í gang. Það er ekki endilega hlutverk ráðherra að beita valdi – heldur allt eins að veita valdi, koma valdi í réttan farveg, landi og þjóð til heilla.“