Fréttastofa Vísis birti myndband af nauðlendingunni sem Ástþór Ernir Hrafnsson tók. „Það kemur flugvél rétt hjá okkur og tekur beygju. Hreyfillinn er augljóslega ekki í gangi. Svo lendir hún bara á þjóðveginum, skoppar þar,“ segir hann við Vísi.
Lögregla og Rannsóknarnefnd flugslysa rannsaka nú málið.
Einn gistir fangageymslur lögreglu eftir nóttina og eru alls 65 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.
Tilkynnt var um umferðarslys í umdæmi lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem ökumaður mótorhjóls missti stjórn á því og hafnaði utan vegar. Hann reyndist óslasaður en hjólið var laskað eftir óhappið.
Þá var tilkynnt um umferðarslys í umdæmi lögreglustöðvar 3, sem sinnir Kópavogi og Breiðholti, þar sem bifreið var ekið á grindverk og endaði utan vegar. Ökumaður var með minniháttar eymsli en bifreiðin var óökufær eftir óhappið og var dregin af vettvangi.