Háskólaneminn sem dæmdur var fyrir árásina á Ingunni Björnsdóttur, dósent í lyfjafræði við Oslóarháskóla, hefur áfrýjað dómi sínum. Áfrýjunardómstóll fjallar um málið í næstu viku.
Ingunn varð fyrir lífshættulegri hnífaárás af hendi nemanda þann 24. ágúst árið 2022 í skólanum. Stakk hann hana sextán sinnum, meðal annars í kviðinn, og var talið kraftaverk að hún hafi lifað árásina af. Málið vakti mikinn óhug í háskólasamfélaginu á Norðurlöndum. Árásarmaðurinn hafði fallið á prófi í námskeiði hjá Ingunni og talið var að árásin hafi verið skipulögð en ekki framin í stundarbrjálæði.
Í september á síðasta ári var nemandinn dæmdur í 7,5 ára fangelsi sem og til að greiða Ingunni 5 milljónir króna í miskabætur. Einnig var hann dæmdur til að greiða öðrum kennara sem hann réðist á 1,5 milljónir.
Nemandinn hefur nú áfrýjað málinu til áfrýjunardómstóls í Osló. Verður málið tekið fyrir hjá dómstólnum í næstu viku, dagana 27. og 28. maí.