Morgunblaðið fjallar um þetta á forsíðu sinni í dag og segir að til skoðunar sé að höfða hópmálsókn á hendur borginni eða fara í íbúakosningu hlusti borgaryfirvöld ekki á mótmæli íbúa gegn áformunum.
Í gær fór til dæmis fram samstöðufundur sem um 400 Grafarvogsbúar sóttu og ræddi Morgunblaðið við einn af skipuleggjendum fundarins, Sigrúnu Ástu Einarsdóttur, sem hefur barist hart gegn áformum borgarinnar. Hún var ómyrk í máli í samtali við blaðið eftir fundinn.
„Hér er gífurlega mikil reiði á meðal íbúa. Við erum mörg hver búin að vera að ganga í hús og það eru örfáir sem við erum búin að hitta sem eru ekki brjálaðir,“ segir Sigrún Ásta við Morgunblaðið og segir að um sé að ræða grasrótarstarf í sinni tærustu mynd.