Aðdáendur þessarar þekktu myndar, sem skartaði Jack Nicholson og Shelley Duvall í aðalhlutverkum, muna vafalaust eftir Grady-systrunum sem bregður fyrir í stutta stund í myndinni. Þó að þær hafi aðeins komið fram í einu atriði er atriðið eitt það þekktasta í hryllingsmyndasögunni.
Það voru systurnar Lisa og Louise Burns sem fóru með hlutverk systranna og þær leyfa aðdáendum myndarinnar að fylgjast með sér í gegnum Facebook-síðuna Shining Twins.
Margir bjuggust við því að systurnar létu meira að sér kveða á hvíta tjaldinu eftir hlutverkið í The Shining en þær völdu þó að fara aðra leið í lífinu. Lisa er til dæmis lögfræðingur á meðan Louise hefur starfað sem vísindamaður og gefið út efni í tengslum við rannsóknir sínar.
Í viðtali við Daily Mail árið 2015 rifjuðu systurnar upp hvernig það var að taka þátt í gerð þessarar eftirminnilegu myndar og sögðu þær að það hefði verið einstök lífsreynsla og mjög skemmtileg.
„Okkur leið eins og heppnustu börnum í heimi að fá að vera þarna,“ sögðu þær og fóru sérstaklega hlýjum orðum um Jack Nicholson sem tók þær undir sinn verndarvæng og var þeim sem faðir á meðan á tökum stóð.