Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, segir að nýr fjármálaráðherra geti ekki firrt sig ábyrgð á þeim viðskiptaháttum sem nú séu viðhafðir á Keflavíkurflugvelli. Nú styttist í að þýska fyrirtækið Heinemann taki við rekstri Fríhafnarinnar og virðist fyrirtækið nú þegar farið að ganga gegn útboðsskilmálum.
Ólafur vekur athygli á stöðunni í grein sem birtist hjá Vísi í dag. Þar ítrekar hann, það sem hann hefur áður bent á, að samkvæmt útboðsskilmálum beri Heinemann að gera íslenskum vörum áfram hátt undir höfði og sýna samfélagslega ábyrgð. Heinemann fari ekki eftir þessum skilyrðum.
„Það hefur ekki orðið raunin,“ segir Ólafur og minnir á að Fríhöfnin er mikilvægasti útsölustaður margra minni og meðalstórra framleiðslufyrirtækja á Íslandi. Þetta eru til dæmis snyrtivöru-, sælgætis- og áfengisframleiðendur. Hjá sumum þessum fyrirtækjum kemur meirihluti veltu þeirra frá Fríhöfninni.
„Heinemann hefur sett fyrirtækjum afarkosti um að lækka verð sitt þannig að þýzka fyrirtækið nái 60-70% framlegð af vörum þeirra, að veita mun ríflegri greiðslufrest en verið hefur og jafnvel taka þátt í starfsmannakostnaði, vilji þau að starfsmenn Fríhafnarinnar hafi þekkingu á vörunum. Það er rétt að taka fram að ekki stendur til að hækka verð til farþega á flugvellinum, heldur vill Heinemann mun hærri framlegð en Fríhöfnin hefur hingað til tekið til sín.“
Fyrir þá sem ekki þekkja þá er hugtakið framlegð notað yfir tekjur að frádregnum breytingum kostnaðar. Hugtakið merkir ekki það sama og hagnaður því fyrirtæki þurfa einnig að boga fastan kostnað. Breytilegur kostnaður er sá kostnaður sem breytist hlutfallslega við breytingar á framleiddu magni, t.d. hráefniskostnaður.
Ólafur segir að þessir afarkostir Heinemann hafi sett íslensk framleiðslufyrirtæki milli steins og sleggju.
„Það er í raun sama hvort þau ganga að skilmálum Heinemann eða hafna þeim, reksturinn stórskaðast við það. Ef gengið er að farkostunum, lækka tekjurnar um tugi prósenta. Ef þeim er hafnað, eiga fyrirtækin á hættu að missa sinn stærsta útsölustað. Þau geta ekki snúið sér til annarra söluaðila á Keflavíkurflugvelli, enda leyfa samningar Isavia það ekki.“
Íslensk samkeppnisyfirvöld skilgreina fríhafnaverslun á Keflavíkurflugvelli sem sérstakan markað. Með því að ganga til samninga við Heinemann er búið að koma einkafyrirtæki í ráðandi stöðu á þessum sérstaka markaði. Samkvæmt samkeppnislögum má markaðsráðandi fyrirtæki ekki misbeita stöðu sinni. Ólafur segist því ekki trúa öðru en að Samkeppniseftirlitið láti til sín taka í málinu.
Eins hafi Heinemann neitað að skipta við ýmsa innlenda birgja sem flytja inn vörur sem hafa verið vinsælar í Fríhöfninni. Það komi ekki á óvart að fyrirtækið skipti við alþjóðlega framleiðendur sem bjóða betri kjör, en það komi þó á óvart að jafnvel þó íslenskir birgjar bjóði verðið sem Heinemann krefst, í samstarfi við alþjóðlega framleiðendur, þá er viðskiptunum engu að síður hafnað.
Íslenska ríkið geti ekki haldið því fram að með því að framselja sína eigin einokun á Keflavíkurflugvelli þá gildi nú aðrar reglur.
„Rétt er að hafa í huga að það er íslenzka ríkið sem hefur komið Heinemann í þá stöðu að geta ráðið örlögum íslenzkra fyrirtækja með þeim hætti sem að ofan er lýst. Isavia er í eigu ríkisins og fjármálaráðherra skipar stjórn fyrirtækisins. Það er sömuleiðis ríkisins að setja reglur um samkeppni og viðskiptahætti á Keflavíkurflugvelli – og tryggja að farið sé eftir þeim.
Nýr fjármálaráðherra, sem er nýlega búinn að endurskipa stjórn Isavia, getur ekki firrt sig ábyrgð á þeim viðskiptaháttum sem nú eru viðhafðir á Keflavíkurflugvelli.“