

Antonio Conte virðist hafa sent duldar pillur í átt að Ruben Amorim þegar hann ræddi um hversu mikilvægt það væri að ungir leikmenn á borð við Rasmus Højlund fái rétta þjálfun til að blómstra.
Højlund, sem er 22 ára gamall, gekk til liðs við Napoli á láni í september síðastliðnum með skilyrtri kaupskyldu upp á um 38 milljónir punda, eftir að honum var gert ljóst að hann væri ekki hluti af framtíðaráætlunum Amorim hjá Manchester United.
Daninn kom til United árið 2023 fyrir um 72 milljónir punda frá Atalanta, en átti erfitt uppdráttar á Old Trafford og skoraði aðeins fjögur mörk í ensku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili.
Eftir að hafa skipt Manchester út fyrir Napólí, líkt og Scott McTominay gerði áður, hefur Højlund aftur fundið taktinn. Hann hefur nú skorað níu mörk og lagt upp þrjú á tímabilinu.
Conte telur uppganginn skýrast af góðri þjálfun. „Rasmus hefur tekið miklum framförum síðan hann kom. Hann hefur mikla hæfileika, en ungir leikmenn þurfa þjálfara sem kenna þeim liðsvinnu, staðsetningu og hvenær á að sækja boltann eða hlaupa í svæðin,“ sagði Conte.