
Luis Enrique er á lista Manchester United yfir helstu kandídata í leit að nýjum stjóra til frambúðar, ef marka má Jeremy Cross á Mirror.
Michael Carrick mun stýra liðinu til loka tímabilsins, en stjórnendur félagsins hyggjast ráða stjóra til frambúðar í sumar.
Samkvæmt Mirror er Enrique einn af þeim stjórum sem United skoðar alvarlega, ásamt nöfnum á borð við Thomas Tuchel, Mauricio Pochettino og Carlo Ancelotti. Eigendur félagsins vilja fá reynslumikinn stjóra sem þolir mikla pressu og væntingar sem fylgja starfinu á Old Trafford.
Enrique, sem er 55 ára, hefur víðtæka reynslu á hæsta stigi. Hann hefur stýrt Barcelona, spænska landsliðinu og er nú við stjórnvölinn hjá Paris Saint-Germain. Með Barcelona vann hann níu stóra titla, þar á meðal Meistaradeildina árið 2015. Þá hefur hann unnið tíu titla með PSG og leiddi liðið til sigurs í Meistaradeildinni á síðasta tímabili.
Samningur Enrique við PSG rennur út eftir næstu leiktíð.