
Þeir Aron Jónsson og Kristján Snær Frostason eru gengnir í raðir FH frá Aftureldingu og HK. Hafnarfjarðarfélagið staðfesti þetta í dag.
Aron lék 17 leiki með Aftureldingu í Bestu deildinni í sumar og Kristján 11 leiki með HK í Lengjudeildinni. Báðir voru samningslausir eftir tímabil.
„Aron er hafsent sem hefur mikið af þeim eiginleikum sem við erum að leita eftir, öruggur á boltanum, fljótur og kraftmikill og með gott hugarfar. Er með góðan bakgrunn frá Noregi, kominn með reynslu úr efstu deild hér á Íslandi og hefur mikinn metnað fyrir því að bæta sig enn frekar.
Kristján er sókndjarfur bakvörður með mikla hlaupagetu, hraða og kraft. Hann er kominn með fína reynslu úr efstu deild, gott hugarfar og mikinn vilja til að bæta sig enn frekar og stimpla sig inn í FH-liðið.
Báðir þessir leikmenn eru spennandi viðbót við hópinn og passa inn í það sem við erum að byggja upp hérna í Krikanum, orkumikið og kraftmikið lið sem ætlar sér stóra hluti á næstu árum,“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH í tilkynningu félagsins.
FH hafnaði í sjötta sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð undir stjórn Heimis Guðjónssonar. Síðan er Jóhannes Karl Guðjónsson tekinn við.
Aron Jónsson og Kristján Snær Frostason ganga til liðs við Fimleikafélagið. Báðar gera þeir samning út keppnistímabilið 2028 🤝
Media deildin settist niður með Davíð Þór yfirmanni knattspyrnumála í höfuðstöðvum Allianz og hann sagði okkur aðeins frá þessum tveimur spennandi… pic.twitter.com/vuNQbgt3bU
— Fimleikafélag Hafnarfjarðar (@fhingar) January 13, 2026