
Knattspyrnudeild KR hefur stofnað til samstarfs við Field Masters Academy, knattspyrnuakademíu í Accra í Gana. Markmið samstarfsins er að styðja við menntun og knattspyrnuiðkun ungra leikmanna, jafnframt því að skapa raunhæfan vettvang fyrir efnilega leikmenn til að stíga sín fyrstu skref í Evrópu.
Samstarfssamningur var undirritaður í nýafstaðinni ferð fulltrúa KR til Gana. Field Masters Academy leggur ríka áherslu á skipulagt starf með ungum og efnilegum leikmönnum, bæði hvað varðar knattspyrnu og menntun. Frá akademíunni hafa komið leikmenn sem síðar hafa leikið á Englandi, í Danmörku, á Spáni og í Portúgal.
Hluti samstarfsins felst í því að þjálfarar akademíunnar og KR munu eiga í virku samstarfi. Þar á meðal verða heimsóknir til KR þar sem þjálfarar kynnast áherslum félagsins í þjálfun og leikfræði. Þá mun KR einnig koma að því að bæta aðstæður til menntunar og knattspyrnuiðkunar í Gana.
Með verkefninu styður KR við mikilvæga starfsemi sem veitir ungum leikmönnum raunhæfan vettvang til skipulagðs íþróttastarfs og skapar tækifæri fyrir þá að elta drauminn um atvinnumennsku í Evrópu.
„Við hjá KR hlökkum mikið til samstarfsins við Field Masters Academy. Við á Íslandi erum framarlega á mörgum sviðum knattspyrnunnar og með þessu samstarfi getum við miðlað reynslu okkar áfram. Um leið opnum við tækifæri fyrir leikmenn frá Gana til að koma til Íslands og taka þátt í æfingum og keppni. Á næstu dögum munu fyrstu tveir leikmennirnir koma til KR og það er mikilvægt að við tökum vel á móti þeim og styðjum þá í að taka fyrstu skrefin í nýju landi,“ segir Magnús Orri M. Schram, formaður knattspyrnudeildar KR.
Þessar fréttir koma skömmu eftir að Vestri tilkynnti að félagið hefði opnað knattspyrnuakademíu í Senegal.