

Fyrrverandi leikmaður Manchester United, Axel Tuanzebe, hefur höfðað mál gegn félaginu og krefst þesss að fá meira en 160 milljónir króna í bætur vegna meintrar vanrækslu í læknisráðgjöf sem hann fékk hjá félaginu.
Tuanzebe, sem er uppalinn hjá United og lék sinn fyrsta leik með aðalliðinu árið 2017, glímdi við endurtekin meiðsli á sínum tíma á Old Trafford.
Samkvæmt gögnum sem Sky News hefur undir höndum, telur varnarmaðurinn að hann geti nú ekki spilað án takmarkana eða hindrana vegna mistaka í meðferð sem hann telur að hafi átt sér stað.
Meginatriði málsins snýst um streitubrotsmeiðsli í mjóbaki sem hann fékk í janúar 2020 og á að hafa valdið honum miklum verkjum. Hann meiddist síðan aftur á hinni hliðinni tveimur árum síðar, í júlí 2022.
Í málsókninni segir að Manchester United hafi ekki veitt honum nægan tíma til að jafna sig né vísað honum til sérfræðings í hryggmeiðslum. Að hans mati hefði rétt meðferð getað komið í veg fyrir verkina og leyft honum að spila án vandræða.
Tuanzebe, sem nú leikur með Burnley, heldur því fram að þetta hafi haft veruleg áhrif á feril hans og tekjur.