
Manchester City minnkaði forskot Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar í fjögur stig með 3-0 sigri á Liverpool á Etihad í gær.
Erling Haaland kom heimamönnum yfir eftir hálftíma leik, en honum hafði áður mistekist að skora úr vítaspyrnu.
Nico Gonzalez bætti við öðru marki rétt fyrir hálfleik þegar skot hans breytti um stefnu af Virgil van Dijk. Eftir hlé tryggði Jeremy Doku City þriggja marka sigur með frábæru skoti.
Þrátt fyrir frábæra frammistöðu sóknarlínunnar fékk Nico O’Reilly, 20 ára varnarmaður City, mikið lof fyrir að halda Mohamed Salah í skefjum, auk þess sem hann lagði upp mark.
„Ég kom inn í leikinn með þá hugsun að þetta yrði niðurstaðan,“ sagði O’Reilly ískaldur efitr leik.
„Ég veit hversu góður hann er, en ég hafði undirbúið mig vel. Ég vissi hvað hann vildi gera og hversu sterkur hann væri.“