Donald Trump, Bandaríkjaforseti, vakti mikla athygli á Gasa-friðarfundinum í Egyptalandi er hann ræddi við eiganda Manchester City, Sheikh Mansour, og kom inn á auð hans.
Friðarfundurinn fór fram í Sharm El-Sheikh í gær, þar sem leiðtogar víðs vegar að úr heiminum komu saman til að ræða næstu skref í átt að langtíma friði á Gasa.
Sheikh Mansour mætti á fundinn sem varaforseti og aðstoðarforsætisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna.
Trump heilsaði Mansour, tók í hönd hans og grínaðist með auðæfi hans. „Mikið af peningum, endalaust af peningum. Og hann er líka góður maður,“ sagði forsetinn.
Ummælin hafa vakið mikil viðbrögð á samfélagsmiðlum, þar sem margir gagnrýndu framkomu Trump. Vakin er athygli á þessu í erlendum miðlum í dag.
„Þrír hlutir sem Trump elskar: peninga, sjálfan sig og völd,“ skrifaði einn netverji til að mynda og margir tóku í svipaðan streng.
Sheikh Mansour keypti Manchester City árið 2008 og hefur breytt félaginu í eitt það sigursælasta í Evrópu.