Jóhann Skúli Jónsson, hlaðvarpsstjarna með meiru, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is á föstudag. Þar var farið vel yfir lokasprettinn í Bestu deild karla.
Það vakti athygli á dögunum þegar Magnús Orri Schram, formaður knattspyrnudeildar KR, sagði að það yrði ekki það versta að falla úr efstu deild, en Vesturbæingar eru í mikilli fallbaráttu. Þessi ummæli hafa fallið í grýttan jarðveg.
„Þessi staða er svo skrýtin að þú færð bara skrýtin ummæli á þessum tímapunkti,“ sagði Jóhann hins vegar í þættinum.
Hann telur jafnframt að þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson sé að horfa mun stærra á hlutina en svo að ná árangri með meistaraflokk karla á þessum tímapunkti.
„Ótrúlegt en satt er gengi meistaraflokks karla það síðasta í hausnum á Óskari Hrafni. Hann er að hugsa þetta á miklu stærri skala, KR sem félag, hann er búinn að taka svakalega til í yngri flokkunum, ég er með krakkana þarna og maður sér að það er búið að koma strúktúr á það.
Ég held að þeir hafi hugsað að þetta tímabil færi bara eins og það færi en áttuðu sig ekki á að þeir yrðu endilega í þessari stöðu. Það er svolítið það sem þeir eru að vakna við núna.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.