Coleen Rooney deildi sprenghlægilegu svari á samfélagsmiðlum eftir að eiginmaður hennar, Wayne Rooney, viðurkenndi að hafa læst hana úti úr húsi þeirra eftir að hún fagnaði Englandsmeistaratitli Liverpool árið 2020 af fullmikilli gleði.
Spennan í kringum Merseyside-ríginn er eitthvað sem Rooney þekkir vel, bæði innan sem utan vallar. Þó Rooney sé harður Everton-maður kemur hann úr blárri fjölskyldu en eiginkona hans Coleen er hins vegar á bandi erkióvina þeirra, Liverpool. Þessi klofningur innan heimilisins hefur valdið ýmsum deilum í gegnum árin.
Þegar Liverpool vann sinn 19. Englandsmeistaratitil undir stjórn Jürgen Klopp árið 2020, ákvað Coleen að skreyta heimilið með Liverpool-fánum sem fór ekki vel í fyrrum leikmann Everton og United.
Wayne rifjaði upp atvikið í nýjasta þætti The Wayne Rooney Show þar sem hann sagði: „Þegar Liverpool vann deildina fyrir nokkrum árum, þá kom ég heim. Ég var þá hjá Derby og Coleen var búin að hengja Liverpool fána upp fyrir utan húsið. Þetta var í gamla húsinu okkar, og fyrir utan innganginn voru svona svalir og hún hafði hengt fánann þar upp. Ég sagði henni að fara og taka hann niður. Hún þurfti að klifra út um gluggann til að ná honum, og ég læsti hana úti,“ sagði Rooney
Rooney viðurkenndi þó að hann hafi hleypt henni inn aftur eftir ekki alltof langan tíma. Þetta atvik hefur þó greinilega ekki dregið úr stuðningi tengdaforeldra hans við Liverpool, því fimm árum síðar heldur fjölskyldan áfram að fagna sigrum Rauða hersins.
„Núna, t.d., eru foreldrar Coleen með meistara-fána uppi við húsið hjá sér,“ bætti hann við.
Coleen brást við þessari frásögn eiginmannsins með því að deila mynd af fánanum sem hún hengdi upp, ásamt því að bæta við nokkrum táknrænum broskörlum og rauðum fána á samfélagsmiðlum.