West Ham hefur áhuga á Kaio Jorge, leikmanni Cruzeiro í heimalandi hans, Brasilíu. Þetta kemur fram í miðlum þar í landi.
Um er að ræða 23 ára gamlan fyrrum framherja Juventus. Honum tókst ekki að sanna sig á þremur árum á Ítalíu, þar sem hann var meðal annars lánaður til Frosinone, en hefur sprungið út eftir endurkomuna til Brasilíu í fyrra.
West Ham er þegar farið að horfa í styrkingu fyrir janúargluggann eftir erfiða byrjun á tímabilinu og er Jorge þar á blaði.
Félagið sýndi honum einnig áhuga í sumar og var til í að greiða yfir 20 milljónir punda. Ekkert varð þó af skiptunum þá en ekki er útilokað að þau gangi eftir í vetur.
Jorge lék sinn fyrsta A-landsleik fyrir Brasilíu í sigri á Síle á dögunum.