Anthony Martial, fyrrum sóknarmaður Manchester United, er að skrifa undir hjá Monterrey í Mexíkó.
Martial var leystur undan samningi sínum hjá Manchester United í lok tímabilsins 2023-24 og gekk í kjölfarið til liðs við gríska stórliðið AEK Aþenu síðasta september.
Hann lék alls 23 leiki á síðasta tímabili fyrir AEK, skoraði níu mörk og lagði upp tvö, en liðið endaði í fjórða sæti grísku úrvalsdeildarinnar og tryggði sér þar með sæti í Sambandsdeild UEFA.
Martial hefur hins vegar verið fjarri sviðsljósinu að undanförnu og hefur ekki verið í leikmannahópi AEK í síðustu sex leikjum liðsins. Er félagið að reyna að losa sig við hann og er það að takast.
Hafði hann verið sterklega orðaður við Pumas, sem einnig er í Mexíkó, en nú er ljóst að hann fer til Monterrey.
Monterrey er stórt lið í Mexíkó og er Real Madrid goðsögnin Sergio Ramos þar á mála.