Það er allt útlit fyrir það að Breiðablik sé úr leik í Meistaradeildinni eftir leik við pólska félagið Lech Poznan í kvöld.
Breiðablik fékk erfitt verkefni í forkeppninni en Lech er með afskaplega sterkt lið og reyndist aðeins of stór biti í kvöld.
Blikar lentu undir eftir aðeins þrjár mínútur en jöfnuðu metin á 27. mínútu – Höskuldur Gunnlaugsson gerði það af vítapunktinum.
Stuttu eftir það mark fékk Viktor Örn Margeirsson beint rautt spjald og þeir pólsku fengu sína eigin vítaspyrnu sem varð að marki.
Joel Pereira skoraði svo þriðja mark Lech stuttu eftir það eða á 42. mínútu og skoraði liðið önnur tvö áður en flautað var til hálfleiks.
Staðan var því 5-1 fyrir Lech í hálfleik og ljóst að tíu Blikar áttu gríðarlega erfitt verkefni framundan í seinni hálfleiknum.
Blikar ógnuðu lítið í seinni hálfleiknum en Lech tókst að bæta við tveimur mörkum og var það seinna úr enn einni vítaspyrnunni.
Mikael Ishak er vítaskytta Lech en hann gerði þrennu og komu mörkin öll af vítapunktinum.