Guðni Bergsson formaður KSÍ telur litlar sem engar líkur á því að félög úr ensku úrvalsdeildinni séu á leið til Íslands að æfa og spila. Þetta kemur fram á mbl.is.
Fram kom í Fréttablaðinu að á undanförnum dögum hafi óformlegar þreifingar átt sér stað á milli fulltrúa enskra úrvalsdeildarliða annars vegar og íslenskra stjórnvalda og KSÍ hins vegar um að liðin æfi hér á landi fyrir lokasprett úrvalsdeildarinnar. Einnig hafa spænsk úrvalsdeildarlið sýnt því áhuga að fá að æfa hér á landi.
Englendingar eru að reyna að koma fótboltanum aftur af stað hjá sér en kórónuveiran hefur farið illa með landið.
„Ég veit svo sem ekki hvort einhver félög hafi hug á því að koma hingað og æfa. Ég get í raun ekki sagt að það sé í einhverri bígerð og maður sér ýmsa annmarka á því. Það veltur á mörgu, meðal annars ástandi í viðkomandi löndum og sóttkvíarúrræðum líka. Það þarf ýmislegt að gerast til þess að þetta verði að veruleika og eins og staðan er núna þá tel ég það frekar ólíklegt að af þessu verði,“ segir Guðni við mbl.is.