Þegar lífið leikur við knattspyrnufólk innan vallar fer boltinn oftar en ekki einnig að rúlla utan vallar, þannig hefur boltaástin blómstrað. Stelpurnar í A landsliði kvenna hafa margar hverjar nælt sér í álitlega menn með góða leggi. Hér gefur á að líta hugguleg boltapör og nú er bara að vona að ástin beri ávöxt og litlir boltapeyjar og markadrottningar líti dagsins ljós.
ELÍSA VIÐARSDÓTTIR & RASMUS STEENBERG CHRISTIANSEN
Daninn Rasmus fann ástina þegar hann mætti til Íslands árið 2010 og hóf að spila fyrir ÍBV, Elísa var þá að stimpla sig inn í kvennalið ÍBV sem lykilmaður. Rasmus hélt aftur út til að spila í atvinnumennsku en kom aftur til Íslands árið 2016. Hann hefur síðan verið í herbúðum Vals líkt og Elísa, en þau hafa gert það gott í boltanum hér heima. Elísa kemur af miklum knattspyrnuættum því systir hennar er ein besta knattspyrnukona þjóðarinnar, Margrét Lára Viðarsdóttir. Elísa hefur spilað 38 A-landsleiki fyrir Ísland, en saman á þetta kröftuga par eitt barn
GLÓDÍS PERLA VIGGÓSDÓTTIR & KRISTÓFER EGGERTSSON
Glódís Perla hefur lengi verið í sviðsljósinu hér á landi, en hún hefur verið ein besta knattspyrnukona Íslands síðustu ár. Þrátt fyrir að vera aðeins 24 ára gömul hefur þessi öflugi varnarmaður spilað 84 A-landsleiki. Glódís hélt í atvinnumennsku árið 2015 og hefur síðan leikið í Svíþjóð. Kristófer hafði spilað í neðri deildum hér á landi og spilað með HK í næstefstu deild árið 2016. Hann elti svo ástina yfir hafið og hefur spriklað í neðri deildum þar í landi.
FANNDÍS FRIÐRIKSDÓTTIR & EYJÓLFUR HÉÐINSSON
Ástin kviknaði hjá þessu öfluga knattspyrnufólki á síðasta ári. Fanndís hefur leikið 109 A-landsleiki fyrir Ísland en Eyjólfur lék fimm leiki á sínum landsliðsferli. Bæði hafa þau verið í atvinnumennsku í fótbolta en njóta nú ástarinnar hér á Íslandi. Eyjólfur er fæddur árið 1985 og er fimm árum eldri en Fanndís. Í dag spilar Eyjólfur með Stjörnunni ásamt því að koma að þjálfun hjá félaginu á meðan Fanndís spilar fyrir Íslandsmeistara Vals. Eyjólfur ólst upp í Breiðholti, en Fanndís er úr Vestmannaeyjum.
SELMA DÖGG BJÖRGVINSDÓTTIR & SÖLVI GEIR OTTESEN
Boltinn rúllar hjá þessu sjóðheita pari, en Sölvi kom aftur heim til Íslands árið 2018 eftir að hafa spilað í 14 ár sem atvinnumaður. Parið eignaðist sitt fyrsta barn í síðasta mánuði en líklega verður Selma ekki á vellinum næstu mánuði eftir barnsburð. Selma hefur spilað með Val og FH hér á landi og lék fjölda leikja með FH í næstefstu deild á síðasta ári. Sölvi er 36 ára gamall og hefur búið víða á ferli sínum, hann lék meðal annars í Svíþjóð, Kína og Taílandi. Sölvi lék 28 A-landsleiki fyrir Ísland á ferli sínum en Selma lék fyrir yngri landslið Íslands á ferli sínum.
SARA BJÖRK GUNNARSDÓTTIR & ÁRNI VILHJÁLMSSON
Sara Björk Gunnarsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, fann ástina í örmum Árna Vilhjálmssonar, atvinnumanns í knattspyrnu. Samband þeirra er nýtilkomið. Sara er búsett í Þýskalandi og leikur með Wolfsburg. Árni leikur í Úkraínu og hefur flakkað á milli landa síðustu ár. Sara verður þrítug seinna á þessu ári en Árni er fjórum árum yngri. Bæði léku með Breiðabliki áður en þau héldu í atvinnumennsku í fótbolta. Sara var áður í sambandi með sjúkraþjálfara Wolfsburg. Sara er fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins og hefur spilað 131 A-landsleik á meðan Árni hefur spilað einn A-landsleik fyrir Ísland.