Riyad Mahrez, sóknarmaður Leicester mætti ekki á æfingu liðsins í morgun en það er Sky Sports sem greinir frá þessu.
Mahrez var sterklega orðaður við Manchester City í félagaskiptaglugganum sem leið og bað m.a um að vera seldur frá félaginu.
Leicester hafnaði hins vegar fjórum tilboðum frá City í Mahrez í gærdag en hann vildi ólmur komast til Manchester.
Eins og áður sagði mætti hann ekki á æfingu í morgun og þá vissu forráðamenn félagsins ekkert um hann í gærdag þegar liðið tapaði 1-2 fyrir Everton í ensku úrvalsdeildinni.
City gæti komið með nýtt tilboð í hann næsta sumar en þetta staðfesti Pep Guardiola á blaðamannafundi í dag.