fbpx
Laugardagur 18.maí 2024
Fréttir

Konan í bílnum stígur fram – Það sem hefur aldrei komið fram um hvarf Guðmundar – Dó hann í bílskúrnum?

Kristjón Kormákur Guðjónsson, Óðinn Svan Óðinsson
Föstudaginn 28. september 2018 10:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það var kvöld og ég var próflaus og Stefán fullur að keyra. Við komum í aflíðandi brekku og bíllinn rann til. Þar stóð strákur illa klæddur og var að biðja um far. Síðan lentum við á honum.“

Hún hefur aldrei sagt sína hlið opinberlega. Vitnisburður hennar er ein af ástæðum þess að endurupptökunefnd ákvað að taka Guðmundar- og Geirfinnsmálin fyrir á ný. Eins og alþjóð veit lauk málunum í gær með sýknu. Um stóran áfanga var að ræða en stærsta sakamáli Íslandssögunnar er hvergi nærri lokið. Ekki er enn vitað með vissu hvað varð um Guðmund eða Geirfinn. Saga viðmælanda DV gæti hins vegar varpað ljósi á málið; þá hvað varð um Guðmund Einarsson. Guðmundur fór frá heimili sínu laugardagskvöldið 26. janúar árið 1974 og ætlaði á dansleik í Alþýðuhúsinu í Hafnarfirði með nokkrum vinum sínum. Hann sást aðfaranótt sunnudagsins en til hans hefur ekki spurst síðan. Guðmundur var 18 ára gamall og bjó í foreldrahúsum. Fyrst eftir hvarf Guðmundar virtist helst vera gert ráð fyrir þeim möguleika að hann hefði orðið úti, en vitni töldu sig hafa séð hann illa til reika á Strandgötu í Hafnarfirði.

Þórður stígur fram, sjá hér

Sigurður Stefán Almarsson.
Mynd/Helgarpósturinn 10. október 1985.

Tveir menn voru handteknir vegna málsins árið 2016, það voru þeir Sig­urður Stefán Alm­ars­son og Þórður Jóhann Eyþórsson. Þórður hefur tvö mannslíf á samviskunni og Stefán er þekktur sem Malaga-fanginn. Ekki tókst að sanna að þeir tengdust málinu og var þeim sleppt. Stefán og viðmælandi DV voru í sambúð í þrjú ár. Þórður Jóhann sagði í samtali við Fréttatímann um handtökuna að hann hefði ekki verið á svæðinu þegar Guðmundur hvarf. Í samtali við Fréttatímann sagði hann:

„Ég lét nú bara dóttur mína fletta því upp á skattkortinu mínu hvar ég var. Þá kom í ljós að ég var að vinna á Eskifirði á þessum tíma. Þetta er bara tilbúningur frá A til Ö.“

26. janúar 1974

Þann 26. janúar 1974 sat hún í bíl með Stefáni kærasta sínum og segir að Þórður hafi einnig verið þar farþegi og þau hafi verið á leið frá Hafnarfirði til Reykjavíkur. Konan segir að bíllinn hafi endað á stráknum sem hafi legið kylliflatur.

„Stefán fór út og ég var beðin um að fara aftur í og hann var tekinn inn í bílinn. Þeir töluðust lítillega við en ég heyrði voðalega lítið hvað þeim fór á milli.“

Segir konan að andrúmsloftið í bílnum hafi breyst. Hún ákvað að hafa sig hæga þar sem hún óttaðist Stefán stundum þegar hann var undir áhrifum. Stefán var heillandi og góður í upphafi sambands þeirra. Hún hafði misst bróður sinni og Stefán var bjargvættur sem hjálpaði henni að takast á við sorgina. En þegar hann drakk breyttist hann í aðra manneskju. Hún lýsir honum eins og Jekyll og Hyde.

„Hann var oft mjög góður við mig en svo sá ég illsku í honum, jafnvel þótt hann væri ekki að drekka. Hann stal stundum frá vinum sínum, sem mér fannst ljótt. Í byrjun sambandsins tók ég ekki eftir þessu, en líklega var ég blind.“

Þórður Jóhann Eyþórsson

Hún segir að Stefán hafi skutlað henni að heimili þeirra en hafi ætlað að koma piltinum til síns heima. Hún kveðst viss um að þetta hafi verið Guðmundur og eftir því sem tíminn leið hafi hún sannfærst um að Stefán tengdist málinu.

Ef þetta var Guðmundur, sagði hann eitthvað á leiðinni?

„Nei, það var eins og hann væri dottandi. Ég sá bara vangann á honum og hárið. Hann horfði einu sinni aftur í og mér brá mikið því það er eins og hann vissi að eitthvað slæmt myndi gerast. Það er svipur sem ég gleymi aldrei.“

Daginn eftir var bíllinn kominn inn í bílskúr. Segir konan að Stefán hafi dregið grænan segldúk yfir bílinn. Þar var bíllinn svo næstu þrjá daga. Segir fyrrverandi sambýliskona Stefáns að hann hafi síðan fengið sér bíl af sömu tegund en í öðrum lit. Henni hafi síðan verið stranglega bannað að koma nálægt bílskúrnum.

„Ég man að í eitt skipti kíkti ég inn um gluggann á bílskúrnum en skyndilega var sparkað í mig og spurt hver djöfulinn ég væri að gera. Þá voru Stefán og Þórður allt í einu mættir.  Ég hef hugsað eftir á að kannski hafi Guðmundur dáið í bílnum. Kannski var hann í bílnum á þessari stundu. Kannski var hann þarna í þrjá sólarhringa.“

Hún segir að Stefán hafi verið á nálum á þessum tíma. Alltaf verið að spyrja um ferðir hennar og við hverja hún væri að tala. Sakar hún Stefán um að hafa einangrað hana en að lokum náði hún að flýja frá honum.

Var þetta óviljaverk, þegar hann ók á manninn?

„Já, já, en það er auðvitað ekkert óviljaverk að maðurinn hverfi. Það er alveg hræðilegt að foreldrar og ættingjar viti ekkert, að barnið manns hverfi. Í mínu hjarta er það óskiljanleg grimmd. Ef Stefán ber ábyrgð á dauða Guðmundar, eins og mig hefur alltaf grunað, þá held ég að hann hafi aldrei náð sér.“

Fór með honum á lögreglustöð

Þegar konan leitaði til lögreglu árið 2014 greindi hún frá því að þegar hún var um 17 ára gömul hafi hún farið með Stefáni niður á lögreglustöð í Borgartúni. Þar hittu þau tvo lögreglumenn, þá Sigurbjörn Eggert Víðisson og Örn Höskuldsson.

„Þar sagði Stefán lögreglumönnunum frá því að Sævar, Kristján og Erla tengdust ávísanafalsi tengt símanum. Hann sagði þeim líka að Sævar og Kristján gætu látið menn hverfa og hann gæti sagt þeim frá ýmsum mannshvörfum. Á móti vildi hann að þeir milduðu yfir honum dóm sem hann átti von á, þá var hann að fara inn í fyrsta skipti. Þá hugsaði ég, hann er örugglega að tala um Guðmund.“

Viðurkenndi Stefán að hafa orðið Guðmundi að bana?

„Hann gerði það aldrei beint, en hann sagði að ég mætti aldrei tala við nokkurn mann um þetta kvöld?“

Þau voru sýknuð, sjá hér

Stefán játar

Stefán hefur játað fyrir tveimur manneskjum að hafa orðið Guðmundi að bana. Það gerði hann bæði  í samtali við Sigurstein Másson og einnig Erlu Bolladóttur. Hann harðneitaði hins vegar að hafa sagt við lögreglu á sínum tíma að þremenningarnir tengdust mannshvörfunum. Vitnisburður sem mögulega varð til þess að saklausir einstaklingar fengu þunga dóma.

Þórður Jóhann Eyþórsson.
Mynd/DV 1. júlí 2003.

Þegar DV ræddi við Erlu Bolladóttur staðfesti hún að hafa farið til fundar við Stefán og þar sagðist hann hafa verið á staðnum þegar Guðmundur Einarsson lést. Frásögn mannsins var sama frásögn og Erlu var gert að undirrita eftir langar og strangar yfirheyrslur hjá lögreglunni.

Þegar jarðarför Sævars Marínós Ciesielski fór fram í Dómkirkjunni árið 2011 var Stefán með mikla háreysti í jarðarförinni og grét hástöfum. Töldu þeir sem þekkja vel til málsins að hann hafi verið sakbitinn vegna þess að hafa bent á Sævar og sagt að hann tengdist málinu á fundinum hjá lögreglunni 1975. Fyrrverandi sambýliskona hans tekur undir það.

„Þess vegna hefur hann grátið svona mikið þegar Sævar fór í gröfina með þetta á bakinu,“ segir konan. En hvað varð til þess að hún ákvað loks að stíga fram?

„Ég var logandi hrædd. Ég var aldrei alveg viss en ég vissi að ég yrði að segja frá þessu kvöldi. Ég var alltaf efins en ég veit að þetta gerðist þetta kvöld og ég varð að horfast í augu við þetta. Ég var alltaf með kvíðahnút og loks tókst mér að segja þessa sögu, hvort sem hún er að fullu rétt eða ekki. Loks eru þyngslin í hjartanu farin,“ segir konan og bætir við: „Mig dreymdi Guðmund nóttina áður en ég fór til lögreglunnar. Mig dreymdi að hann bæði mömmu sína að jarða sig í hvítu jakkafötunum sínum.“

Enginn vissi neitt

Hún segir að enginn í fjölskyldunni hafi vitað sögu hennar öll þessi ár. Hún hafði aldrei rætt um það sem gerðist. Eftir að hún greindi frá því sem hún vissi árið 2014 fékk hún neyðarhnapp hjá lögreglu og var með hann heilt sumar.

„Ég var alltaf hrædd. Ég varð alltaf að fara út með hundinn, kíkti alltaf í kringum mig áður en ég fór út,“ segir konan og bætir við að sími hennar hafi verið hleraður.

„Þeir spurðu Stefán hvort hann hefði heyrt eitthvað í mér og hann sagði nei. Þá sögðu þeir að það væri nú einkennilegt „þar sem það væri til upptaka þar sem þú hótaðir að drepa hana vegna þess að hún væri búin að kjafta frá.“ Hverju átti ég að kjafta frá? Þetta gerðist og þetta er það sem ég veit.“

Hefur þú heyrt frá Stefáni?

„Nei, og veistu, ég held að það sé löngu dáin í honum sálin. Fyrir mér segir það alla söguna að hann hafi þurft að víkja úr kirkjunni þegar Sævar var jarðaður. Samviskubitið yfir að hafa látið allt þetta fólk sitja saklaust inni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 23 klukkutímum

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda

Lýsir yfir áhyggjum af vanþekkingu forsetaframbjóðenda
Fréttir
Í gær

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“

Þorgerður Katrín las Bjarna pistilinn: „Ég vil hvetja fólk til þess að skoða heimabankann hjá sér“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Stöð 2 veldur Helgu vonbrigðum

Stöð 2 veldur Helgu vonbrigðum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar

Tommi ómyrkur í máli: Þetta er fólkið sem sagði nei – Banvænt aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar