Sigmundur skrifar langa grein um þetta í Morgunblaðið í dag og segist hann hafa hafist handa við að skrifa greinina fyrir tveimur árum en ákveðið að láta hana bíða og safna dæmum. „Síðan þá hefur ástandið versnað að því marki að það kallar á viðbrögð og svar við spurningunni: Viljum við vernda íslenskuna eða ekki?“
Sigmundur bendir á að tungumálið sé það sem sameinar þjóðina umfram annað – menningararfur og sameiningarafl.
„Það er einnig verkfæri sem gerir okkur ekki aðeins kleift að tjá okkur og skilja aðra, við þurfum það til að geta hugsað. Það er því ekki að ástæðulausu að þeir sem leitast við að ná stjórn á tjáningu og hugsun fólks reyna jafnan að hafa stjórn á tungumálinu og jafnvel breyta því.“
Sigmundur nefnir dæmi um þetta og segir að borið hafi á því að orðum sé skipt út í þeim tilgangi að fela innihaldið. Fóstureyðingar segir hann vera eitt dæmi en því var skipt út fyrir orðið „þungunarrof“.
„Ekki leið á löngu þar til orðið kona var farið að þvælast fyrir yfirvöldum. Nú skal talað um einstaklinga með leg eða „leghafa“ fremur en konur. Ef lesendur telja að ég sé að skálda þessa vitleysu get ég bent þeim á að ríkisstjórnin hefur þegar leitt orðið í lög og notað það í umræðu um konur.“
Þá segir hann að farið sé að tala um „fæðingaraðila“ eða fæðingarforeldri“ í stað þess að nota orðið móðir. Nefnir hann einnig að nú sé talað um lögleiðingu fíkniefna sem „afglæpavæðingu“.
Hann nefnir fleiri dæmi:
„Eftir að málefni hælisleitenda fóru algjörlega úr böndunum á Íslandi var okkur sagt að tala um „umsækjendur um alþjóðlega vernd“. Afskaplega villandi orðalag um þá sem vilja fá hæli á Íslandi (fremur en annars staðar) en einnig svo óþjált og kerfislegt að það minnir gagnrýnendur á að tala ekki um það sem þeim kemur ekki við.“
Sigmundur tekur svo sérstaka umfjöllun um málfræðina og segir að á Íslandi nægi stóra bróður ekki að innleiða nýlensku með nýjum orðum. „Hér skal málfræðinni breytt, eða réttara sagt, hún eyðilögð. Hvers vegna leitast sumir nú við að tala hið sérkennilega nýja „kynjamál“,“ spyr hann og bætir við að breytingarnar séu ekki til þess fallnar að gera tungumálið skiljanlegra, einfaldara eða fallegra.
„Hvernig hljómar annars þessi nýlenska?: „Það vita öll að ekkert trúir þessu. Íslendingar standa saman öll sem eitt. Eitt fyrir öll og öll fyrir eitt.“ Ég vona að skemmtikraftar fari ekki að hrópa yfir salinn: „Eru ekki öll í stuði?!“
Sigmundur tekur RÚV til bæna í grein sinni og bendir á að eitt mikilvægasta hlutverk stofnunarinnar sé að vernda íslenskuna.
„Hvers vegna fer það fremst í flokki þeirra sem vilja brengla tungumálið í pólitískum tilgangi og ýta undir rugling og skautun? Hvers vegna leggja menn sig fram um að tala rangt mál að því marki að þeir lenda í vandræðum með samhengi og skiljanleika?“
Hann nefnir svo nokkur dæmi, flest frá Ríkisútvarpinu.
„Flest ættu að vera komin með heitt vatn í kvöld.“ Er verið að vísa til húsanna eða íbúanna? Það hafði reyndar komið fram í útvarpsfréttum skömmu áður þar sem sagði á réttu máli: „Flestir íbúar ættu að vera komnir með heitt vatn í kvöld.“ Á þeim 45 mínútum sem liðu fram að sjónvarpsfréttum var þessu breytt.
„Eru mörg farin úr bænum vegna ástandsins?“ Mörg hvað, dýr? Í frétt um skoðanakönnun: „Jafn mörg nefndu [X].“ Jafn mörg hvað, voru bara börn spurð? Eða eru bara börn í framboði?: „77% vilja ekki þau sem hafa lýst yfir forsetaframboði.“
Í lok greinar sinnar segir Sigmundur að ef þeir sem segjast vilja vernda íslenskuna gera það ekki núna, þegar sótt er að tungumálinu á annarlegan hátt, þá sé ekkert að marka þá.
„Þá eru þeir bara að tala nýlensku og geta sagt eins og í bók Orwells: „Stríð er friður, frelsi er þrældómur, fávísi er styrkur.“