fbpx
Laugardagur 27.apríl 2024
Kynning

Fiskfélagið: Bestu ævintýrin gerast undir brúnni í miðbænum

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 18. mars 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Vesturgötu 2 er upphafspunktur Reykjavíkur, en þegar götum Reykjavíkur voru fyrst formlega gefin nöfn og húsum við þær númer árið 1848 var ákveðið að miða upphafspunkt við Bryggjuhúsið svokallaða.

Það er því vel við hæfi að í næsta húsi byrji ævintýrin undir brúnni á Fiskfélaginu, hlýlegum veitingastað sem opnaði fyrir níu árum síðan í gömlu Zimsen byggingunni. Árið 2004 var þessi fyrrum látlausa bygging færð, endurgerð og endurinnréttuð. Henni var svo komið fyrir á Grófartorgi 2008. Má ganga svo langt að segja að Zimsen hafi risið eins og fuglinn Fönix og eignast nýtt útlit og nýtt hlutverk í að þjónusta og dekra við Íslendinga og gesti þeirra.

Við vinkonurnar ákváðum að ljúka vikunni á sunnudagskvöldi og vorum að okkur fannst einu Íslendingarnir, sem var kannski ekki rétt hjá okkur enda skiptist staðurinn niður í þrjú svæði og þó að væru tvenn pör á næsta borði við okkur vorum við alveg í friði, fyrir utan að gestir við bæði borð gjóuðu augunum yfir til að forvitnast um hvað væri girnilegt á matardiskunum hjá okkur og öfugt.

Fordrykkurinn er yuzu sour, en yuzu er asískur ávöxtur sem er bitrari en klassíski sítrusinn sem við fáum hér; yusu sake, eggjahvíta, limesafi, sykursíróp og sítrónubörkur. Vinkonan var einstaklega hrifin að farið er að bjóða upp á drykkinn hérlendis, enda búin að kynnast honum í London, en ég var að smakka í fyrsta sinn. Ferskur og góður og vorum við að dreypa á honum alveg fram yfir forréttinn.

Besta og fallegasta granólað í bænum

Að vanda kom brauð á borðið fyrst. Brauðið er súrdeigsbrauð með noisette smjöri sem er karamelluð smjörprótín sem er tekið úr smjörinu og þeytt aftur við, granóla sem er heimagert; ristaðir hafrar, graskersfræ og trönuber allt í maple sírópí. Virkilega lungamjúkt og gott að smyrja smjörinu og granólanu saman. Vel útilátið og við þurftum ekki að rífast um 2-3 bita og ákváðum að hafa brauðið hjá okkur allt kvöldið, en á mörgum stöðum er það tekið af borðum um leið og fyrsti réttur mætir á borðið.

Hringferð um landið á antik diskum

Matseðillinn sem við prófuðum er eins konar hringferð um Ísland þar sem boðið er upp á nokkra ljúffenga rétti, skemmtilega framsetta og vín valið með. Það sem vakti strax áhuga okkar og athygli voru diskarnir, en þeir eru eins og tilefnisdiskarnir eða plattarnir sem mörg okkar þekkja af veggjum eða borðum afa og ömmu eða jafnvel mömmu og pabba.

Fyrstur á borð var lystauki til að kveikja á bragðlaukunum, túnfisktartar ásamt sojaristuðum graskersfræjum, birkimajónesi og sýrðum eplum. Virkilega gott og smart borið fram, í merktum staupglösum með skeið og „bakkinn“ er trjákubbur sem glösin hvíla ofan í.

Hringferðin hófst á Sauðárkróki, en þar er 12 mánaða aldinn tindur sem nefndur er eftir Tindastól, bæði í mulning ofan á pönnusteiktri þorskmedalíu og í sósunni sem er með, steikt og ferskt blómkál, poppað bankabygg og kínóa og ferskar jurtir. Glas af frönskum Petis Chablis fylgir með. Fiskur er eitthvað sem ég panta mér sjaldan eða jafnvel aldrei þegar ég fer út að borða, en það er löngu kominn tími á að breyta því hugarfari og þessi bragðaðist einstaklega vel.

Næsta stopp um landið var Búðardalur og þar var borinn fram urriði, grafnir urriða tartar með piparrót, sellerí og sýrðum sinnepsfræjum, ferskt jurtasalat og reykt skyr, íslenskar flatkökur og stökkt laufabrauð. Að mínu mati fannst mér þessi réttur skemmtilegast framsettur, bæði þar sem ég ólst upp við að steikja laufabrauð og finnst það alltaf gott. Frábærlega framsettur og góður réttur, askurinn alveg punkturinn yfir i-ið og get ég ímyndað mér að ferðamenn heillist af þessu skemmtilega íláti.

Það var þetta með forvitnina með rétti sem fólk á næstu borðum pantar, viðurkennum það, við kíkjum oft yfir á næsta borð til að sjá hvað aðrir eru að panta sér. Eftir að hafa séð litríkan rétt borinn fram þar, báðum við um að prófa þann rétt, sem reyndist réttur sem ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei haft áhuga á að borða eða smakka, en einu sinni verður allt fyrst: djúpsteikt skata.

Hún var þó ekki í hefðbundinni framsetningu, heldur kom hún í brauðraspi með heimagerðum nachos, margarítuís, marmeraðri hörpuskel, ristaðri papriku, blóðappelsínu og ferskum osti yfir. Glas af nýsjálenskum Montes Sauvignon blanc fylgir með. Eins og sjá má á myndinni er skatan í hátíðarbúningi og mun fallegri að líta en maður á að venjast. En hún var ekki bara falleg og litrík, því hún var einstaklega góð, hæfilega „crunchy“ og margarítuísinn með var æðislegur, mjög gott kombó.

En áfram með hringferðina um landið, sem býður ekki bara upp á fisk því Austurland, nánar tiltekið Egilssstaðir bjóða upp á steikta lambamjöðm, með seljurótarmauki, steiktu grænkáli og bjórsýrðum lauk. Glas af ítölsku Tommasi Arele rauðvíni fylgir með. Lambið klikkar sjaldnast, en má auðvitað útfæra á margvíslegan hátt. Hér er það einstaklega ljúffengt og mjúkt undir tönn og bjórsýrði laukurinn setti alveg punktinn yfir bragðlaukana.

Eftirrétturinn er súkkulaðiganash, hnetukrókant, hunangsís og ferskt íslenskt Lautarhunang rétt utan af Selfossi, rifsberja og súrmjólkursnjó er stráð yfir við borðið með miklum tilþrifum þjónsins, mjög töff og skemmtileg framsetning. Glas af argentísku Late Harvest fylgdi með, ég hef einhvern veginn aldrei vanið mig á að panta sérstakt eftirréttavín, yfirleitt hefur maður látið flöskuna sem maður pantar með matnum duga út máltíðina eða fengið sér vatnsglas með eftirréttinum, en það má svo sannarlega segja að maður hafi klúðrað hlutunum með þessari afstöðu hingað til, því glas af eftirréttavíni er algjörlega málið til að ljúka góðri máltíð með eftirréttinum.

Hlýlegur og notalegur staður með gömlum og nútímalegum stíl í bland

Jökull var þjóninn okkar allt kvöldið og stjanaði við okkur af algerri fagmennsku og var skemmtilegur og óstressaður á sama tíma, okkur leið allan tímann eins og heima hjá okkur, velkomnar og enginn að ýta á okkur að drífa máltíðina af. Allt kom á borðið í hárréttri röð, eins og til dæmis vín á undan matnum sjálfum. Síðan var alltaf tékkað á okkur hvernig bragðaðist og hvort að okkur vantaði eitthvað fleira. Jökull svaraði öllum fyrirspurnum án þess að hiksta og til gamans má geta þess að hann er lærður kokkur, en ákváð svo að læra þjóninn líka. Þó að það sé auðvitað engin krafa á þjóna almennt, þá fannst okkur gaman að hann skuli þekkja til verka í báðum störfum.

Staðurinn sjálfur er einstaklega hlýlegur og það er pínu eins og maður sé kominn heim til afa og ömmu, en samt með nútímayfirbragði. Í anddyrinu er stór rammi með PostIt miðum í öllum litum, þar sem viðskiptavinir hafa ritað á kveðjur og einkunnir fyrir mat og þjónustu. Fyrir aftan okkur á veggnum var stór mynd sem vakti athygli okkar, fullt af fólki á henni og sumir í vafasömum stellingum. Okkur langaði auðvitað að forvitnast meira um myndina og hvort að fólk ræki ekki upp stór augu yfir henni. Myndin er útskriftarverkefni Sólveigar Pálsdóttur úr Listaháskóla Íslands og sagði Jökull hana byrja eins og brúðkaup, svo í miðju brúðkaupi er sett eitthvað út í púnsið og svo læra menn eitt og annað. Á veggnum á móti eru útsaumaðar myndir, meira í stílnum frá ömmu og á milli hanga medalíur fyrir kokk ársins og bikarar fyrir kokkanema ársins, norræna kokkanema og þjálfara ársins. Yfirkokkurinn Ari og matreiðslumennirnir Kara og Þorsteinn eru í Kokkalandsliðinu sem stendur og hafa Ari og Þorsteinn báðir náð á verðlaunapall í matreiðslumanni ársins, sá seinni fyrir nokkrum vikum. Eldhúsið er því gríðarlega vel mannað.

Þrátt fyrir að Fiskfélagið sé eins og nafnið gefur til kynna með áherslu á fiskrétti, þá fékk staðurinn viðurkenningu í fyrra frá félagi íslenska sauðfjárbænda fyrir framúrskarandi meðhöndlun á lambakjöti og framreiðslu á því og lambið sem við borðuðum staðfesti alveg að þau verðlaun eru verðskulduð.

Kvöldið leið alltof hratt og hefðum við alveg viljað tefja aðeins lengur undir brúnni og spjalla saman, en þar sem svefn og skyldur morgundagsins voru framundan ákváðum við þess í stað að halda heim með því loforði að heimsækja Fiskfélagið aftur fljótlega og uppgötva ný ævintýri undir brúnni.

Fiskfélagið er á Vesturgötu 2a og borðapantanir eru í síma 552-5300 eða á heimasíðu staðarins. Fiskfélagið er einnig á Facebook.

Opnunartímar eru:
Hádegi
Mánudag til Föstudags kl. 11:30 – 14:30.

Kvöld
Sunnudag til Fimmtudags kl. 17:30 – 22:30.
Föstudag til Laugardags kl. 17:30 – 23:30.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Kynning
13.12.2023

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni

Hlífðarpúðar sem aðlagast líkamanum vegna einstakrar tækni
Kynning
28.11.2023

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“

Skúli fann heilsuna aftur í Póllandi – „Lífsgæði mín löguðust umtalsvert frá því að vera algjör sjúklingur eða öryrki yfir í að komast aftur á vinnumarkaðinn“
Kynning
31.03.2023

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl

Glæsilegir vinningar í Páskaleik DV: Taktu þátt fyrir 5. apríl
Kynning
29.03.2023

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum

Miklu meiri lífsgæði með Protis Liðum