Þegar sólin hækkar á lofti fer fólk gjarnan í framkvæmdagír. Mörg hafa þegar sett sig í startholurnar og eru farin að sanka að sér tækjum og hlutum til framkvæmdanna, til að hafa allt tiltækt á staðnum og ekki þurfi að bíða eftir sérpöntunum þegar iðnaðarmennirnir koma eða fólk ræðst sjálft í framkvæmdir á baðherberginu. Kannski er það lærdómur frá Covid-tímanum, þegar vörur skiluðu sér seint til landsins, og kenndi okkur að sýna meiri forsjálni og fyrirhyggju í aðdraganda framkvæmda,“ segir Philip Grétarsson, verslunarstjóri hjá Innréttingum og tækjum.

„Við erum sérvöruverslun og einbeitum okkur að því að hafa annað og öðruvísi vöruval en fæst í hefðbundnum byggingarvöruverslunum. Fólk kemur í Innréttingar og tæki til að fá eitthvað annað og hefur iðulega orð á því, eins og kúnni um daginn sem kallaði nýjasta glerið í sturtuveggi hjá okkur „gróðurhúsagler“. Það er slétt að innan en eins og bárur að utan, kallast „Waves“ og er glært en sem sést ekki í gegn um,“ upplýsir Philip.

Gullfalleg og fagurbleik handlaug með gylltum blöndunartækjum þar sem aðeins er ýtt á takka til að skrúfa frá vatninu.

Persónulegt yfirbragð tískunnar

Fyrirtækið hefur verið í eigu sömu fjölskyldunnar frá upphafi.

„Það voru amma mín og afi sem stofnuðu heildsöluna Jensen og Bjarnason árið 1945, en þegar foreldrar mínir tóku við fyrirtækinu árið 1993 opnuðu þau verslun samhliða heildsölunni og nefndu hana Innréttingar og tæki. Við hjónin svo tókum við rekstrinum af þeim og rekum verslunina í dag með syni okkar sem er okkar hægri hönd. Allt sem við kemur hönnun og fagurfræði innanhúss er sameiginlegt áhugamál fjölskyldunnar og lærði dóttir okkar innanhússhönnun. Ég held reyndar að allir hafi gaman af fallegum hlutum og baðherbergi er hægt að gera svo ótrúlega falleg. Svo ég vitni í Sindra Sindrason sjónvarpsmann í Heimsókn, þá á að vera svolítill spa-bragur og hótelfílingur á baðherbergjum heimila, en samt með hlýlegu sniði þar sem heimilisfólkinu líður vel,“ segir eigandinn Íris Jensen, innan um glæstar innréttingar og tæki fyrir baðherbergi.

Baðinnréttingar í litum halda velli og viðurinn dökknar. Hægt er að fá vaska og blöndunartæki í sömu litum.

„Í haust munum við að fagna 30 ára afmæli búðarinnar og gaman að sjá hvernig tískan hefur farið í hring á þessum þrjátíu árum. Nú eru aftur komnar í tísku glæsilegar innréttingar í dökkbláum og grænum litum með öldugleri framan á skúffum og með gylltum eða brons höldum, eins og var hæstmóðins á árunum í kringum 1993. Við sjáum líka flotta litatóna eins og ljósgrábrúna í innréttingum þar sem hægt er að fá handlaugar í sama lit og með gylltum blöndunartækjum í stíl. Það eina sem var ekki áberandi í denn en er afar vinsælt nú eru svört og dökkbrún klósett. Bleik og ljósblá klósett eru líka mikið „inn“, en þau svörtu eru langvinsælust,“ upplýsir Íris.

Hún segir allt í tísku þegar kemur að útliti baðherbergja.

„Yfirbragðið er persónulegt og má vera eftir smekk hvers og eins. Það er helst að hvíttuð eik sé hverfandi. Nú er meira um dökka hnotu og rauðari eik í baðinnréttingum og ekki líður á löngu þar til kirsuberjaviðurinn kemur inn á ný, en Danir eru þegar byrjaðir að hanna eldhúsinnréttingar úr kirsuberjaviði.“