
Lennon hlaut fyrst dóm árið 2008 þegar vinur hans klagaði hann til lögreglu eftir að hafa fundið 50 gígabæt af barnaníðsefni á tölvunni hans. Hann játaði sök í málinu árið 2010 og hlaut skilorðsbundinn dóm.
Árið 2012, þegar hann hafði aftur verið gómaður með barnaníðsefni og var á leið fyrir dóm, lét hann sig hverfa. Lögregla fann blóðpoll á heimili hans og ummerki eftir innbrot og var engu líkara en að svívirðilegt ofbeldi hefði átt sér stað.
Við rannsókn lögreglu kom í ljós að skömmu áður hafði hann tekið allan peninginn sinn út af bankareikningi sínum og dró lögregla þá ályktun að hann hefði sviðsett dauða sinn og látið sig hverfa til að forðast yfirvofandi fangelsisdóm.
Á síðustu árum hefur nokkrum sinnum spurst til Lennons og var til dæmis hreyfing á Amazon-reikningi hans árið 2020. Þá barst lögreglu ábending um að sést hefði til hans á ráðstefnu í Dallas árið 2022.
WWNY greinir frá því að US Marshals Service hefði svo fyrir skemmstu fengið ábendingu um að hann dveldi í Canton í New York-ríki og var hann handtekinn þar í síðustu viku.
Lennon er sagður hafa útvegað sér ný skilríki, nýtt fæðingarvottorð og þá er hann sagður hafa reynt að útvega sér vegabréf með nýju nafni, Justin Phillips. Undir hinu nýja nafni skráði hann sig í verkfræðideild University of New York þar sem hann stundaði nám uns hann var handtekinn.
Í fréttum bandarískra fjölmiðla staðfesta skólayfirvöld að nemandi að nafni Justin Phillips hefði verið handtekinn.
Búast má við því að Lennon mæti bráðlega fyrir dóm og gæti hann átt þungan fangelsisdóm yfir höfði sér.