fbpx
Mánudagur 03.nóvember 2025
Pressan

Draugahús á útsölu: „Afslátturinn getur verið gífurlegur“

Pressan
Mánudaginn 3. nóvember 2025 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fasteignamarkaðurinn í Hong Kong er gríðarlega þungur; margir borga meira en helming tekna sinna fyrir litlar íbúðir langt frá miðborginni. Í þessu sjálfstjórnarhéraði Kína, þar sem 7,4 milljónir manna búa á svæði nærri níutíu sinnum minna en Ísland, eru þrengsli og húsnæðisskortur hluti af hinu daglega lífi.

Íbúar sem vilja freista þess að fá betri íbúðir á hagstæðu verði geta gert það á ýmsa vegu – ein þeirra er að leigja íbúð þar sem hræðilegir atburðir hafa átt sér stað, svo sem morð, sjálfsvíg eða eitthvað yfirnáttúrulegt.

CNN fjallaði um þennan óvenjulega afsláttarmarkað í Hong Kong og bendir á að sumar fasteignasölur haldi sérstaka skrá yfir svokölluð „draugahús“ á netinu.

Langt undir markaðsvirði

„Afslátturinn getur verið gífurlegur – og margir sem hafa ekki neitt á móti þessu geta fengið slíkar íbúðir langt undir markaðsvirði,“ segir fjárfestirinn Ng Goon-lau í samtali við CNN. Hann hefur sankað að sér slíkum eignum og hefur hann fengið viðurnefnið „konungur draugahúsanna“ í Hong Kong.

Í umfjöllun CNN kemur fram að á vefsíðunni Spacious.hk sé að finna 92 síðna lista sem nær aftur til ársins 2006, þar sem skráð er hvar og hvernig íbúar létust. Þannig geta áhugasamir kynnt sér fasteignina áður en þeir skuldbinda sig til að leigja eða kaupa rándýra eign.

Búddismi og taóismi á sér djúpar rætur í Hong Kong og er það útbreidd trú fólks að búseta á stað þar sem einhver dó á skelfilegan hátt geti leitt af sér ógæfu.

Hatrið og reiðin getur setið eftir

CNN ræddi við Andrew Kwan, svonefndan feng shui-meistara, sem segir að margir trúi því að sá sem deyr hörmulegum dauðdaga fái ekki frið. „Hatrið og reiðin getur setið eftir og andinn kann að vera fastur í íbúðinni,” segir hann en í grunninn er feng shui kínversk hugmyndafræði um hvernig umhverfi og jafnvægi orku hefur áhrif á heppni, heilsu og líðan fólks.

Þessi ótti hefur skapað sérstakan markað fyrir fjárfesta og leigjendur sem margir hverjir eru tilbúnir að taka áhættuna og spara pening.

Í frétt CNN er vísað í rannsókn Utpal Bhattacharya, prófessors við Hong Kong University of Science and Technology, en niðurstöður hennar sýndu að fasteignir þar sem talinn er vera draugagangur séu um 20% ódýrari en aðrar sambærilegar íbúðir. Íbúðir þar sem morð hafa verið framin eru 34% ódýrari.

Áhrifin ná einnig til íbúða á sömu hæðum og jafnvel í sömu húsum þó um stór og mikil háhýsi sé að ræða. Getur verðfallið numið allt að 10%.

Flestir kaupendur forðast draugahús

„Trú á feng shui er mjög sterk meðal Kínverja, og um 94% íbúa Hong Kong eru af kínverskum uppruna… það þýðir að flestir kaupendur forðast draugahús,“ segir Bhattacharya við CNN. Bent er á það að lög krefjist þess ekki að slíkar upplýsingar séu gerðar opinberar en fasteignasalar verði þó að svara rétt ef spurt er um dauðsföll í eigninni.

Fjárfestirinn sem vísað er til hér að framan sér tækifæri í dauðanum og kaupir eignir af örvæntingarfullum seljendum og leigir þær út til fólks. Hann segist þó halda sig fjarri íbúðum þar sem illræmd morð hafa verið framin og velja frekar íbúðir þar sem dauðsföll áttu sér stað fyrir löngu. Í slíkum íbúðum finni fólk síður fyrir óþægindum – ef draugarnir hafa þá ekki þegar flutt annað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út
Pressan
Fyrir 5 dögum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing
Pressan
Fyrir 6 dögum

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt