fbpx
Þriðjudagur 04.nóvember 2025
Pressan

Viðtal Trump við 60 Minutes veldur fjaðrafoki – Fólk hefur áhyggjur af heilsu hans og minni

Pressan
Þriðjudaginn 4. nóvember 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum á síðasta ári birtist viðtal við frambjóðandann Kamala Harris í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes. Viðtalið hafði þó verið klippt áður en það var sýnt en það fór heldur betur fyrir brjóstið á Donald Trump Bandaríkjaforseta. Hann stefndi útgefanda þáttanna og sakaði um að hafa reynt að hafa áhrif á niðurstöðu kosninganna með því að fegra viðtalið við Harris. Fór svo að útgefandinn greiddi Trump rausnarlegar bætur og virðist stríðsöxin nú alfarið grafin því Trump mætti í viðtal til 60 Minutes á föstudaginn.

Viðtalið hefur vakið mikla athygli. Einkum vegna þess að það hefur verið rækilega klippt til. Hér verður umræðan um viðtalið rekin í grófum dráttum.

90 mínútur verða 28

Viðtalið var 90 mínútur að lengd en birta útgáfa þess var ekki nema 28 mínútur. Það hefur því verið klippt rækilega til. Seinna birti þátturinn þó uppskrift af viðtalinu ásamt lengri útgáfu sem er 73 mínútur að lengd. Á einum stað í viðtalinu, sem var ekki að finna í fyrstu útgáfunni, talaði forsetinn um áðurnefnda bótagreiðslu.

„60 Minutes borguðu mér helling af peningum. Og þú þarft ekki að birta þetta, því ég vil ekki niðurlægja þig, en 60 Minutes neyddust til að borga mér helling af peningum því þeir tóku út svar frá henni [Harris] sem var svo slæmt að það hefði getað haft áhrif á niðurstöðu kosninganna, og það var sýnt tveimur kvöldum fyrir kjördag. Þeir settu nýtt svar í staðinn. Og þeir borguðu mér fullt af peningum fyrir þetta. Það má ekki birta falsfréttir. Það verða að vera alvöru fréttir. Og ég held að það sé núna að gerast.“

Annað sem var klippt út úr frumútgáfu viðtalsins voru ummæli forsetans um niðurstöðu forsetakosninganna árið 2020, þar sem Trump tapaði fyrir Joe Biden. Þar ítrekaði forsetinn að hann hafi verið sviptur sigrinum með sviksamlegum hætti.

Biden, Biden, Biden

Trump er enn með forvera sinn á heilanum. Í viðtalinu sagði hann ítrekað að Biden hafi verið versti forseti lýðveldissögunnar sem beri enn ábyrgð á öllu sem miður fer í Bandaríkjunum.

„Biden var versti forseti í sögu þjóðarinnar okkar. Við vorum með verstu verðbólguna, verst allt. En það versta sem hann gerði var að hleypa milljónum manna inn í landið okkar sem voru í mörgum tilfellum glæpamenn og morðingjar. 11.888 morðingjum var hleypt inn til okkar. Venesúela hleypti mörgum þeirra inn. Þeir komu samt frá öllum kimum heimsins. Ekki bara Venesúela, heldur víðs vegar að.“

Og aftur:

„Það gerði Biden að versta forsetanum, því verðbólgunni hef ég þegar reddað. Við vorum með verstu verðbólgu lýðveldissögunnar en nú höfum við enga. Hún er 2 prósent í dag sem er fullkomin verðbólga.“

Og aftur:

„Ég fer til Japan, ég fer til Suður-Kóreu, ég fer til Kína – og veistu hvað ég kalla það? Virðingu við þjóð okkar. Þeir komu ekki svona fram við Biden. Þegar Biden fór þangað – hann fór varla nokkuð fyrir það fyrsta. Þá fór gaurinn ekki úr svefnherberginu sínu. En þeir komu ekki svona fram við Biden. Þeir báru enga virðingu fyrir því að hann datt í þrígang við að fara upp í flugvél. Ég meina þessi maður hefði aldrei átt að verða forseti, þetta var kosningasvindl…“

Og aftur og aftur:

„Sjáðu hvað kom fyrir þjóðina því Biden varð forseti?“

„Þeir báru enga virðingu fyrir okkur þegar þeir höfðu Biden og þegar þeir höfðu Obama. Obama var hræðilegur forseti. Enginn vill tala um það út af pólitískum rétttrúnaði. Mér er sama. Hann var hræðilegur forseti. Þá byrjaði hnignun þjóðarinnar okkar, en ég stöðvaði hana. Svo komu svikakosningarnar og síðan það sem Biden gerði þjóð okkar sem aldrei má gleyma.“

Samkvæmt uppskrift viðtalsins kemur nafn Bidens fram rúmlega 40 sinnum og þá gjarnan þrátt fyrir að spyrill væri ítrekað að reyna að ná fram svörum um núverandi ríkisstjórn. Trump minntist tíu sinnum á Obama og sex sinnum á meint kosningasvik árið 2020.

Sannaði mál sitt með útprenti af sinni eigin færslu

Trump fullyrti í viðtalinu að honum hafi tekist að binda endi á átta stríð. Máli sínu til stuðnings tók hann fram útprent af færslu frá einu ráðuneyti hans á samfélagsmiðlum þar sem er fullyrt að hann hafi bundið endi á átta stríð.

Lygar og rangfærslur

Fréttakonan og spyrillinn Norah O’Donnell hefur einnig verið gagnrýnd fyrir að taka á forsetanum með silkihönskum og fyrir að reka ekki ofan í hann rangfærslur. Hann fullyrti til dæmis ítrekað að hafa tekið við versta efnahag sögunnar með sögulega hárri verðbólgu. Verðbólgan var um 3 prósent þegar hann tók við og er um 3 prósent í dag. Trump fullyrti að matarkarfan sé ódýrari í dag en þegar hann tók við, en hún er þó dýrari. Eins fullyrti hann að fyrir ekki svo löngu hafi forverar hans í embætti beitt uppreisnarlögum 28 sinnum. Þetta er rangt, sá forseti sem virkjaði uppreisnarlögin oftast var Olysses S. Grant sem gerði það sex sinum á 19. öld. Trump fullyrti svo enn einu sinni að erlend ríki borgi innflutningstollana. CNN rekur 18 rangfærslur forsetans með ítarlegum hætti hér.

Hafði enga hugmynd um hvern hann náðaði

O’Donnell spurði Trump út í mál eins ríkasta manns í rafmyntaheiminum, manns sem er þekktur sem C.Z. Hann játaði á sig peningaþvætti árið 2023 og þáverandi ríkisstjórn tók fram að brot hans hefðu skaðað þjóðaröryggi Bandaríkjanna með því að gera hryðjuverkasamtökum á borð við Hamas kleift að fjármagna sig. Hún spurði Trump hvers vegna hann hefði náðað C.Z.

„Okey, ertu tilbúin? Ég veit ekkert hver þetta er. Ég veit að hann fékk fjögurra mánaða dóm eða eitthvað þannig. Ég heyrði að þetta hefðu verið nornaveiðar hjá Biden. Og það sem ég vil sjá er rafmynt, því ef við erum ekki með hana þá fer hún til Kína, það er enginn munur á þessu og gervigreind fyrir mér. Synir mínir eru miklu meira í rafmynt en ég, ég veit rosalega lítið um þetta, en eitt veit ég. Þetta er risastór bransi. Og ef við verðum ekki stærst þar þá verða Kína eða Japan það í staðinn. Svo ég styð þetta 100 prósent. Þessi maður var, að mínu mati og miðað við hvað mér var sagt, þú veist, fjögurra mánaða dómur.

Ríkisstjórn Biden kom mjög illa fram við þennan mann og hann var dæmdur í fangelsi. Hann er vel virtur. Hann er farsæll í starfi. Þeir sendu hann í fangelsi og leiddu í gildru. Það er mitt mat. Svo var mér sagt.

Ég sagði: Eh, það lítur kannski illa út ef ég geri þetta en ég verð að gera það rétta. Ég þekki þennan mann ekkert. Ég held ég hafi aldrei hitt hann. Kannski hef ég það. Eða þú veist, einhver tekið í höndina á mér eða eitthvað. En ég held ég hafi aldrei hitt hann. Ég veit ekkert hver þetta er. Mér var sagt að hann væri fórnarlamb alveg eins og ég og margir aðrir, fórnarlamb hræðilega fólksins í Biden-ríkisstjórninni…“

C.Z heitir réttu nafni Changpeng Zhao og er meðstofnandi rafmyntakauphallarinnar Binance. Binance var stofnað árið 2017 og varð fljótt stærsta rafmyntakauphöll heims. Bandarísk stjórnvöld sökuðu Binance um að hafa ekki tilkynnt rúmlega 100 þúsund grunsamlegar færslur frá hryðjuverkasamtökum á borð við Hamas, al-Qaeda og Ríki íslams. Eins var Binance notað fyrir viðskipti með barnaníðsefni og tölvuglæpi.

Er forsetinn heill heilsu? 

Sumum fannst forsetinn ekki vera upp á sitt besta í viðtalinu, fannst hann sveittur og málflutningur hans slitróttur og samhengislaus. Það sé það áhyggjuefni að forsetinn sé ekki meðvitaður um stöðu almennra borgara hvað varðar matvöruverð og verðbólgu. Eins sé er talið óheilbrigt að forsetinn sé enn með forvera sinn á heilanum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 5 dögum

Kona ákærð fyrir svæsin leigusvik á Tenerife – Á fangelsi yfir höfði sér

Kona ákærð fyrir svæsin leigusvik á Tenerife – Á fangelsi yfir höfði sér
Pressan
Fyrir 5 dögum

„Það er hægt að sigra popúlista og öfgahægrihreyfingar“

„Það er hægt að sigra popúlista og öfgahægrihreyfingar“