Lögregla á Tenerife segist hafa leyst upp skipulagðan afbrotahóp sem hefur herjað á heimamenn og túrista á Adeje ströndinni og Los Cristanos. Hópurinn hefur stolið úr verslunum og brotist inn í hótelíbúðir. Hefur hópurinn margítrekað beint spjótum sínum að tilteknum fyrirtækjum og vinsælum ferðamannasvæðum og valdið miklu uppnámi.
Lögregla segir handtökurnar vera afrakstur þriggja mánaða rannsóknarvinnu, en mennirnir, sem eru taldir vera þrír af sex höfuðpaurum glæpahópsins, hafa verið undir stöðugu, leynilegu eftirliti. Sérfræðingar lögreglu þvert á deildir hafa unnið saman að því að rekja slóð hinna grunuðu og bera kennsl á þá.
Mennirnir þrír hafa allir verið úrskurðaðir í tímabundið gæsluvarðhald. Samtals hafa sex verið handteknir vegna rannsóknarinnar og þar af sitja fimm í haldi lögreglu núna. Segir lögregla að handtökurnar séu þungt högg á þá glæpaöldu sem hefur vakið ugg í brjósti hjá fyrirtækjaeigendum og ferðamönnum á suðurhluta Tenerife-eyjarinnar.
Canarian Weekly greindi frá.