OJ Simpson var á sínum tíma ein skærasta stjarna NFL-deildarinnar og var til dæmis valinn leikmaður ársins árið 1973. Hann var einnig þekktur leikari og gerði það gott í bíómyndum og þáttum.
Sjá einnig: OJ Simpson látinn 76 ára að aldri
Simpson var ákærður fyrir morð á fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Brown, og vini hennar, Ronald Goldman, árið 1994.
Veltu ýmsir því fyrir sér hvort hann þjáðist af áverkaheilabilun (CTE) eftir árin í NFL-deildinni en einkenni slíks heilaskaða geta meðal annars lýst sér í hegðunarbreytingum og aukinni árásarhneigð.
New York Post greinir frá því að nokkrir vísindamenn hafi farið þess á leit að gera rannsóknir á heilanum úr Simpson til að kanna hvort hann hafi þjáðst af CTE.
Lögmaður hans, Malcolm LaVergne, segir að Simpson verði brenndur og heili hans verði ekki fjarlægður áður en það verður gert. Vísindamenn muni því ekki gera neinar rannsóknir á honum.