fbpx
Miðvikudagur 01.maí 2024
Pressan

„Ég veit að þau munu deyja“ – Fósturfaðirinn sem tekur bara dauðvona börn í fóstur

Kristján Kristjánsson
Fimmtudaginn 21. október 2021 06:05

Mohamed Bzeek. Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hann hefur fylgt fleiri en tíu börnum til grafar. Sum dóu í örmum hans. Allt voru þetta fósturbörn hans. Hann vissi frá upphafi að þau væru dauðvona en tók þau samt sem áður í fóstur og annaðist til hinstu stundar. Óhætt er að segja að hann sé sönn hvunndagshetja.

Fyrir fjórum árum fjallaði Los Angeles Times (L.A. Times) um þessa hetju sem heitir Mohamed Bzeek. Hann er innflytjandi frá Líbíu en hefur búið áratugum saman í Bandaríkjunum. Nú berst hann sjálfur við illvígt ristilkrabbamein.

Í rúmlega tvo áratugi hefur hann tekið að sér dauðvona börn, veikustu börnin sem barnaverndaryfirvöld í Los Angeles eru með á sinni könnu.

Þegar L.A. Times ræddi við hann fyrir fjórum árum var hann með sex ára stúlku í fóstri. Hún var með heilagalla, blind og heyrnarlaus og fékk flogaköst daglega. Handleggir hennar og fætur voru lamaðir. Bzeek sagðist bara vilja að hún vissi að hún væri ekki ein í þessu lífi. „Ég veit að hún heyrir ekki, að hún sér ekki, en ég tala alltaf við hana. Ég held stöðugt á henni, leik við hana, snerti hana . . . Hún er með tilfinningar. Hún er með sál. Hún er mannvera,“ sagði hann.

Hann tók hana í fóstur þegar hún var mánaðar gömul. Áður hafði hann verið með þrjú börn, með sömu einkenni, í fóstri. „Fyrir þessi börn þá er þetta ævilangur dómur,“ sagði hann.

Framlagt Bzeek til umönnunar dauðvona barna hefur verið mikið og hann er mikils metinn af barnaverndaryfirvöldum í Los Angeles. „Ef það er hringt í okkur og sagt: „Þetta barn verður að fara á líknardeild, þá er aðeins eitt nafn sem kemur upp í huga okkar. Hann er sá eini sem myndi taka barn sem lifir hugsanlega ekki af,“ sagði Melissa Testerman, sem sér um að finna veikum börnum varanlegt fósturheimili. Hún sagði að alvarlega veikum börnum sé komið fyrir á sjúkrastofnunum eða hjá hjúkrunarfræðingum sem hafa boðist til að taka þau að sér.

Bzeek er hins vegar eina fósturforeldrið sem tekur að sér dauðvona börn. Hann er einstæður faðir, 24 ára sonur hans er fatlaður.

Mohamed Bzeek með litlu stúlkuna sem fjallað er um í greininni. Skjáskot/YouTube

Bzeek, sem er orðinn 66 ára, kom til Bandaríkjanna 1978 til að stunda nám en settist síðan að. Hann er trúrækinn múslimi. Á níunda áratugnum kynntist hann Dawn sem varð eiginkona hans. Hún hafði starfað sem fósturforeldri áður en hún kynntist Bzeek. Afi hennar og amma höfðu verið fósturforeldrar og hafði það mikil áhrif á hana. Heimili hennar var einhverskonar neyðarathvarf þar sem hún tók við börnum sem þurfti að koma samstundis fyrir eða höfðu verið tekin af foreldrum sínum.

Eftir að þau gengu í hjónaband héldu Bzeek og Dawn áfram að taka við börnum í fóstur og tóku við tugum barna. Þau önnuðust einnig kennslu í hvernig á að takast á við veikindi barna og dauða.

Fyrsta andlátið

Fyrsta fósturbarnið sem lést hjá Bzeek var stúlka sem lést 1991. Hún var dóttir landbúnaðarverkakonu sem var barnshafandi þegar hún andaði að sér skordýraeitri sem var verið að úða á akra. Stúlkan fæddist með skaddaða mænu og lést áður en hún náði eins árs aldri. Þetta gerðist síðdegis þann 4. júlí 1991 þegar Bzeek var að undirbúa kvöldmatinn. „Það var mikið áfall fyrir mig þegar hún dó,“ sagði hann við L.A. Times.

Mohamed Bzeek með eitt af börnunum sem hann hefur annast. Skjáskot/YouTube

Um miðjan tíunda áratuginn ákvað hann að sérhæfa sig í umönnun dauðvona barna sem enginn vildi hafa eða taka við. Meðal þeirra barna sem hann hefur annast er drengur sem glímdi við veikindi í meltingarvegi. Hann var lagður 167 sinnum inn á sjúkrahúsum á þeim átta árum sem hann lifði. Hann gat aldrei borðað fasta fæðu en hjá Bzeek var alltaf lagt á borð fyrir hann og hann sat til borðs með fjölskyldunni enda hluti af henni. Bzeek tók að sér litla stúlku sem glímdi við sömu veikindi og stúlkan sem var nefnd hér fyrr í greininni. Hún lést aðeins átta dögum eftir að hún flutti til Bzeek. Hún var svo lítil að það var dúkkuframleiðandi sem gerði föt á hana fyrir útförina. Bzeek hélt á kistinnu hennar eins og skókassa við útförina. „Aðalatriði er að þú verður að elska þau eins og þín eigin börn. Ég veit að þau eru veik. Ég veit að þau munu deyja. Ég geri mitt besta sem mannvera og læt guð um restina,“ sagði hann.

Sonur hans og Dawn, Adam fæddist 1997, með sjúkdóm sem veldur því að bein hans eru gríðarlega brothætt. Hann er einnig með dvergvöxt. Þegar hann var lítill var hann svo brothættur að bara það að skipta um bleiu eða klæða hann í sokka gat brotið bein í honum. Hann er nú orðinn fullorðinn og menntaður í tölvufræði.

Dawn lést 2014 eftir erfið veikindi.

Bzeek háir nú baráttu sína við krabbameinið og ekki er útséð með hvernig þeirri viðureign lýkur.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 3 dögum

Þessi 15 metra slanga gæti verið sú stærsta sem lifað hefur á jörðinni

Þessi 15 metra slanga gæti verið sú stærsta sem lifað hefur á jörðinni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Katie lést í eldsvoða í stúdentaíbúðinni – Læknar gerðu óhugnanlega uppgötvun

Katie lést í eldsvoða í stúdentaíbúðinni – Læknar gerðu óhugnanlega uppgötvun
Pressan
Fyrir 4 dögum

Áhugaverð niðurstaða nýrrar rannsóknar á háhyrningum

Áhugaverð niðurstaða nýrrar rannsóknar á háhyrningum
Pressan
Fyrir 4 dögum

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson

Jákvæð niðurstaða nýrrar meðferðar við Parkinson
Pressan
Fyrir 5 dögum

Dularfullur hlutur hrapað úr geimnum og lenti á húsi í Flórída

Dularfullur hlutur hrapað úr geimnum og lenti á húsi í Flórída
Pressan
Fyrir 6 dögum

Er þetta skrýtnasti raunveruleikaþáttur sögunnar? – Þurfti að vera nakinn og lokaður inni í meira en ár

Er þetta skrýtnasti raunveruleikaþáttur sögunnar? – Þurfti að vera nakinn og lokaður inni í meira en ár
Pressan
Fyrir 1 viku

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin

Harmleikur í Svíþjóð – Tvö börn fundust látin
Pressan
Fyrir 1 viku

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva

Tæplega helmingur kínverskra stórborga er að sökkva