Munur á innkaupsverði, dýr flutningur, gengissveiflur, sérþekking starfsmanna og ólíkt rekstrarumhverfi eru helstu ástæður þess að sjöfaldur verðmunur er á vinsælum bílstól í Ólavíu og Oliver annars vegar, og í Bretlandi hins vegar. Þetta kemur fram í svari verslunarinnar við fyrirspurn DV.
Sjá einnig: Sjöfaldur verðmunur á vinsælum bílstól: Kaupandi sér eftir því að hafa ekki gúglað
DV greindi frá því í gærkvöldi að munur á útsöluverði á Graco Junior Maxi barnastóll í Argos í Bretlandi og í Ólavíu og Oliver á Íslandi, sé sjöfaldur ef stóllinn er keyptur af viðskiptavini sem ekki tryggir hjá Sjóvá. Annars er verðmunurinn fimmfaldur. Bílstólinn kostar 4.940 krónur, tæplega 35 pund, í Argos í Bretlandi en um er að ræða verslunarkeðju sem rekur 750 verslanir á Bretlandseyjum. Í versluninni Ólavía og Oliver kostar stóllinn 35.990 krónur en viðskiptavinum Sjóvár býðst að kaupa stólinn á lægra verði, eða 24.993 krónur.
Í fréttinni var rætt við viðskiptavin Ólavíu og Oliver sem harmaði að hafa ekki aflað sér verðupplýsinga í nágrannalöndunum áður en hann keypti stól í versluninni. „Ef ég hefði hins vegar haft rænu á að gúggla svolítið heima hefði mér aldrei dottið í hug að fara í búðina. Ætli ég hefði þá ekki keypt þetta og fengið það sent með DHL,“ sagði Steinþór Steingrímsson við DV.
Fulltrúi Ólavíu og Oliver hefur nú svarað DV.
Hér fyrir neðan eru skýringar Birnu H. Árnadóttur, hjá Ólavíu og Oliver, birtar í heild sinni.
Verðið á umræddum bílstól í Bretlandi er 4.940 kr en það verð er mun lægra en innkaupsverð til okkar frá framleiðanda. Þennan verðmun má rekja til þess að Ísland er lítið land með aðeins 330 þúsund íbúum og því kaupum við lítið magn af hverri vöru í einu og fáum þar af leiðandi ekki ekki eins hagstætt innkaupsverð og stórar verslunarkeðjur í Bretlandi þar sem fólksfjöldinn er 64 milljónir.
Dýrt er að flytja vörur til Íslands vegna landfræðilegrar legu. Mun ódýrara er að flytja vörur á milli meginlanda Evrópu. Bílstólar eru ekki hagkvæmir í flutningi þar sem þeir eru rúmfrekir og flutningskostnaður deilist þar af leiðandi á færri einingar.
Á Íslandi er 24% virðisaukaskattur á barnavörum en á Bretlandi er 5% virðisaukaskattur af barnavörum og því er verðmunur enn meiri en af öðrum innfluttum vörum.
Umræddur bílstóll var keyptur á gengi sem var mun hærra en það er í dag. Gengisbreytingar hafa veruleg áhrif þegar samanburður sem þessi er gerður og þar sem vörur sem þessar seljast almennt ekki strax, þá geta gengisbreytingar haft veruleg áhrif á verðið. Eftir situr að við greiddum mun hærra verð fyrir vöruna þegar við keyptum hana inn heldur en gengi dagsins gefur til kynna.
Verið er að bera saman verð í vefverslun í Bretlandi og verslun í verslunarmiðstöð á Íslandi. Ofan á þetta verð í vefversluninni í Bretlandi kemur sendingarkostnaður.
Á Íslandi tíðkast samstarf barnavöruverslana og tryggingafélaga þar sem gegn því að vera í ákveðnu tryggingarfélagi býðst viðskiptamönnum afsláttur í barnavöruverslunum. Í okkar tilfelli fá viðskiptavinir í stofni í Sjóvá 30% afslátt af bílstólum. Hjá okkur seljast 90-95% af bílstólum með þessum tryggingafélagsafslætti.
Við bjóðum upp á tveggja ára ábyrgð á öllum vörum sem verslaðar eru hjá Ólavíu og Oliver. Starfsfólk okkar fer meðal annars á öryggisnámskeið og er með mikla þekkingu á öryggi bílstóla. Viðskiptavinum gefst kostur á að koma þeim að kostnaðarlausu og láta fagmenn aðstoða þá við festa bílstólinn. Að okkar mati er ekki hægt að gera of mikið úrmikilvægi þess, þegar verið er að versla vörur sem tryggja öryggi barnanna okkar.
DV áréttar, vegna orða Birnu um að Argos sé netverslun, að svo er ekki í hefðbundnum skilningi. Hún er heldur ekki hefðbudnin verslun. Í hverri verslun, sem eru 750 talsins víðsvegar um Bretland, eru tölvur þar sem viðskiptavinir geta skoðað vörur á skjám, pantað og greitt fyrirfram. Ef vararn er ekki til er hún send er í verslunina eða heim til viðskiptavinarins, eftir því hvort hentar betur. Flestar vörur eru þó til á staðnum – í litlu magni – og afhentar strax.