Sjöfaldur verðmunur á vinsælum bílstól: Kaupandi sér eftir því að hafa ekki gúglað

Bílstólar eru mikilvægt öryggistæki í umferðinni.
Umferð Bílstólar eru mikilvægt öryggistæki í umferðinni.

Verðmunur á útsöluverði á Graco Junoir Maxi barnastól á Íslandi og í Bretlandi er allt að sjöfaldur. Bílstólinn kostar 4.940 krónur, tæplega 35 pund, í Argos í Bretlandi. Í versluninni Ólavía og Oliver kostar stóllinn 35.990 krónur en viðskiptavinum Sjóvár býðst að kaupa stólinn á lægra verði, eða 24.993 krónur.

Á þetta bendir Steinþór Steingrímsson á Facebook. Hann keypti stól í Ólavíu og Oliver í gær en á meðan hann skoðaði fletti hann verðinu upp í Bretlandi. Í samtali við DV segir hann að það sé ólíkt honum að kaupa vöru á borð við þessa án þess að bera saman verð fyrir fram. Þannig háttaði til að kaupin þoldu ekki bið. „Ef ég hefði hins vegar haft rænu á að gúggla svolítið heima hefði mér aldrei dottið í hug að fara í búðina. Ætli ég hefði þá ekki keypt þetta og fengið það sent með DHL,“ segir hann.

Verðmunurinn, ef viðskiptavinur tryggir ekki hjá Sjóvá, er 629%.

Þess má geta að í Bretlandi er virðisaukaskattur á barnavörur 5% en á Íslandi 24%. Barnabílstólar bera þó engan toll á Íslandi. Þá er Argos stór verslunarkeðja.

DV ákvað til samanburðar að kanna verð á þessum sama stól í Danmörku, Svíþjóð og Noregi. Í öllum löndunum er hægt að fá stólinn á undir sjö þúsund krónum en hann er á tilboði í versluninni Lekmer, bæði í Noregi og Svíþjóð. Fullt verð í Noregi og Svíþjóð er 11-12 þúsund krónur.

DV hefur ekki náð tali af forsvarsmönnum Ólafíu og Oliver í dag, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Hér má sjá hvernig Graco Junior Maxi er verðlagður í verslunum í nágrannalöndunum, samanborið við Ísland.
Ólíkt verðlag Hér má sjá hvernig Graco Junior Maxi er verðlagður í verslunum í nágrannalöndunum, samanborið við Ísland.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.