Getur munað 26 prósentum á verði – Hagstætt verð hjá erlendu flugfélagi til Parísar
Það getur munað allt að 26 prósentum á verði flugfélaga til Frakklands í sumar fyrir þá sem ætla sér að elta íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu og fljúga út fyrir riðlakeppni Evrópumótsins og heim að henni lokinni. Hægt er að spara sér tugi þúsunda með því að bóka flug frá Íslandi til Frakklands og aftur heim með því að bóka ferðir hjá hollenska lággjaldaflugfélaginu Transavia, samanborið við íslensku flugfélögin Icelandair og WOW air. Þetta leiddi verðathugun DV á beinu, millilendingalausu flugi til Parísar frá Keflavík og aftur heim í júní, fyrir einn fullorðinn með eina ferðatösku.
Íslenska karlalandsliðið tekur þátt í sínu fyrsta stórmóti í knattspyrnu í Frakklandi í sumar þar sem strákarnir okkar leika í F-riðli gegn Portúgal, Ungverjalandi og Austurríki. Ísland hefur leik þann 14. júní gegn Portúgal í Saint-Etienne í miðausturhluta Frakklands. Næsti leikur á eftir verður leikinn 18. júní, gegn Ungverjum í Marseille á suðurströnd Frakklands, en lokaleikurinn, gegn Austurríki, fer fram 22. júní í París (Saint-Denis).
DV ákvað því að setja upp dæmi um íslenskan knattspyrnuáhugamann sem ætlar sér að dvelja í Frakklandi á meðan Ísland tekur þátt í riðlakeppninni. Hann flýgur út fyrir fyrsta leik Íslands og heim eftir að liðið lýkur leik í riðlakeppninni. Tekið skal fram að hér er aðeins verið að skoða verð á flugferðum en ekki gistingu, ferðalögum innan Frakklands og uppihaldi. Öll verð og ferðir miðast við það sem uppgefið var og til boða stóð á bókunarvefjum áðurnefndra flugfélaga að morgni 14. janúar 2016.
WOW air býður upp á tvo valkosti þegar kemur að beinu, millilendingalausu flugi til Frakklands. Annars vegar beint flug til Parísar og hins vegar flug til borgarinnar Nice, í suðurhluta Frakklands.
Ef knattspyrnuáhugamaðurinn í dæminu okkar flýgur út 12. júní og heim 24. júní kostar beina flugið til og frá París, með öllu, 83.995 krónur.
Ef hann kýs að fljúga beint til Nice þann 12. júní og heim 23. júní kostar flugið með öllu 94.995 krónur. Tekið skal fram að fyrir heimferðina frá Nice var aðeins laust flug 23. júní en ekki 24. eins og í hinum dæmunum.
Icelandair flýgur hins vegar bara beint og millilendingalaust til Parísar en ekki annarra borga í Frakklandi þó hægt sé að komast með einni millilendingu til Marseille, sem var nýtt flug sem kom inn við vinnslu þessarar úttektar og því ekki innifalið.
Þegar beint flug til og frá París er skoðað reynist Icelandair rúmum 12 þúsund krónum dýrari en WOW air. Miðað var við Economy Class í ferðinni út þann 12. júní og kostar ferðin út 35.705 krónur. En til að komast heim 24. júní stóð aðeins til boða að bóka heimför í beinu flugi í næsta klassa fyrir ofan, Economy Flex. Reyndist það talsvert dýrara flug eða 60.780 krónur.
Það gerði að verkum að heildarverð á beinu flugi, til og frá París, með Icelandair kostaði 96.485 krónur í athugun DV. 12.490 krónum hærra verð en hjá WOW á sömu leið, sömu daga.
Tekið skal fram að mjög hugsanlega er hægt að fá hagstæðari kjör á flugferðum beggja félaga með því að taka á sig millilendingar en hér var, eins og fram hefur komið, aðeins miðað við beint flug.
Vefsíðan turisti.is vakti athygli á því í síðustu viku að íslensku flugfélögin tvö eru ekki ein um að fljúga milli Íslands og Parísar. Hollenska lággjaldaflugfélagið Transavia hefur nefnilega líka flogið þessa leið yfir sumartímann um nokkurra ára skeið. Félagið hefur nú opnað fyrir bókanir á þessum ferðum og benti turisti.is á, miðað við tilteknar forsendur, að flugferðir með Transavia væru talsvert hagstæðari en með íslensku félögunum. Það var einnig niðurstaðan í verðathugun DV.
Ekkert flug var að vísu laust til Parísar þann 12. júní þannig að í dæminu var notast við 11. júní en heimferðin er sú sama, 24. júní. Hægt er að fá flug með Transavia til Parísar og aftur heim til Íslands á alls 73.952 krónur. Rúmlega 22.500 krónum ódýrara en hjá Icelandair og 10 þúsund krónum ódýrara en hjá WOW air.
Sem fyrr segir er athugun DV ekki tæmandi, forsendur og ferðatilhögun íslenskra knattspyrnuáhugamanna sem ætla að leggja leið sína til Frakklands í sumar getur verið önnur en hér er miðað við. En ljóst er að þær þúsundir Íslendinga sem mjög líklega fylgja liðinu á þessum merku tímamótum þurfa að huga að ýmsu. Mikilvægt er þó að fólk finni ferðir sem henta því og þeim leikjum sem það ætlar sér að sjá og sé meðvitað um að ýmsir valkostir eru í boði, á mismunandi kjörum.
1 a)
Beint flug fyrir 1 fullorðinn
Ferð út:
12. júní: 34.999 kr.
Ferð heim:
24. júní: 39.999 kr.
Sundurliðun og aukagjöld:
Flugverð: 67.482 kr.
Skattur: 7.516 kr.
Bókunargjald: 999 kr.
1 innrituð taska 20 kg. báðar leiðir: 7.998 kr.
1 b)
Beint flug fyrir 1 fullorðinn
Ferð út:
12. júní: 49.999 kr.
Ferð heim:
23. júní: 33.999 kr.
Sundurliðun og aukagjöld:
Flugverð: 77.374 kr.
Skattur: 6.624 kr.
Bókunargjald: 999 kr.
1 innrituð taska 20 kg. báðar leiðir: 9.998 kr.
Verð alls: 94.995 kr.
2)
Beint flug fyrir 1 fullorðinn
Ferð út:
12. júní: 35.705 kr. Economy Class
Ferð heim:
24. júní: 60.780 kr. Economy Flex
Sundurliðun og aukagjöld
Flugverð: 88.800 kr.
Skattar og önnur gjöld: 7.685 kr.
3)
Beint flug fyrir 1 fullorðinn
Ferð út:
11. júní: 157 evrur (22.157 kr.)
Ferð heim:
24. júní: 307 evrur (43.326 kr.)
Viðbótarpakki fyrir farangur:
Innifalið 10 kg. handfarangur og 1 innrituð taska 20 kg.
Alls: 60 evrur (8.467 kr.)
Verð og upplýsingar miðast við bókunarvefi viðkomandi flugfélaga 14. janúar 2016.
Óvíst er hvort þær ferðir sem hér eru gefnar upp standi enn til boða.