fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024

Hvalveiðar á Íslandi: „Fyrsta vélvædda stóriðjan“

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 10. mars 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hvalveiðar hafa verið samofnar sögu þjóðarinnar frá landnámi en haft mismikið vægi í gegnum aldirnar. Í kringum aldamótin 1600 fóru erlendar þjóðir að hafa áhuga á hvölum við Íslandsstrendur og ráku þær stórútgerð héðan fram á 20. öldina. Smári Geirsson í Neskaupstað skrifaði sögu stórhvalaveiða á Íslandi og ræddi við DV um málefnið.

Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915
Varanger sem Hans Ellefsen gerði út Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915

Baskar ruddu brautina

Svo virðist vera sem Íslendingar hafi veitt hval frá upphafi byggðar og flutt með sér kunnáttuna frá Noregi. Í Grágás, fyrstu lögbók Íslendinga, segir: „Ef hval rekur á land manns, og á hann allan, en ef skot er í, þá á sá hvalinn hálfan er skot á í, ef hann kemur til að skera.“ Í aldir sátu Íslendingar einir að þessum veiðum enda voru hvalveiðar ekki eiginlegur atvinnuvegur heldur búbót.

Í kringum aldamótin 1600 fóru baskneskir hvalveiðimenn að venja komur sínar hingað en talið er að þeir séu ein fyrsta þjóðin til að stunda hvalveiðar sem atvinnuveg. Smári segir: „Menn grunar að Hollendingar hafi einnig verið á ferðinni hér á 17. öld, þótt menn hafi ekki fulla vitneskju um það. Fornleifarannsóknir benda til þess en ekki eru til skriflegar heimildir.“ Vitað er að Baskar reistu að minnsta kosti þrjár hvalveiðistöðvar á Vestfjörðum og er saga þeirra alþekkt vegna Spánverjavíganna svokölluðu árið 1615.

Um miðja 19. öld hófust hvalveiðar af miklum móð við Ísland að nýju. Að mestu leyti voru það Norðmenn sem veiddu hval við Íslandsstrendur en aðrar þjóðir stunduðu hér tilraunaveiðar, þar á meðal Bandaríkjamenn sem reistu verksmiðju á Vestdalseyri við Seyðisfjörð. „Bandaríkjamenn komu hingað árið 1863 og stunduðu veiðar til 1867. Þeir reistu fyrstu vélvæddu hvalstöðina í veraldarsögunni. En sú útgerð gekk ekki.“ Einnig reyndu Danir og Hollendingar fyrir sér um miðja öldina í kjölfarið. Eiginleg gullöld hvalveiða hófst árið 1883 og var hún drifin áfram af Norðmönnum.

„Það eru ekki til miklar heimildir um mannskaða en það hlýtur þó samt að hafa verið“
Smári Geirsson „Það eru ekki til miklar heimildir um mannskaða en það hlýtur þó samt að hafa verið“

Hættulegt starf

Á 19. öld prófuðu hvalveiðimenn sig áfram með nýjar aðferðir, sérstaklega sprengiskutulinn sem skotið var úr byssu. En fram að þeim tíma höfðu veiðimenn skutlað hvalinn með handafli.

Var þetta ekki hættulegt starf?

„Jú, sérstaklega þegar skutlað var með frumstæðum aðferðum og það eru til ágætis frásagnir frá þeim veiðum. Það var hætta á að hvalirnir gætu dregið bátana með sér niður. Þegar menn fóru að sigla á stórum hvalveiðiskipum voru veiðarnar sjálfar stundaðar með litlum róðrarbátum. Það eru ekki til miklar heimildir um mannskaða en það hlýtur þó samt að hafa verið.“

Hvaða tegundir voru veiddar?

„Fyrst og fremst var það sléttbakurinn. En um upp miðri 19. öld stigu menn fyrstu skrefin í því að veiða reyðarhvali; langreyð, sandreyði og steypireyði. En það reyndist erfitt því að reyðarhvalirnir eru miklu erfiðari viðfangs en sléttbakarnir. Sléttbakarnir eru svolítið kubbslegir og feitir og hafa þá náttúrulegu eiginleika að fljóta þegar þeir drepast. En reyðarhvalirnir sökkva, þannig að það þurfti miklu meiri búnað til að ná þeim.“

Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915
Sólbakki í Önundarfirði Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915

Fyrsta vélvædda stóriðjan

Smári segir að efnahagsleg áhrif erlendra hvalveiða á Íslendinga hafi verið nokkur og ekki síst á þeim stöðum þar sem veiðarnar voru stundaðar, Vestfjörðum og Austfjörðum. Íslendingar fengu atvinnu af starfseminni að einhverju leyti en mismikið eftir stöðvum. Þegar hvalveiðar voru í hvað mestum blóma störfuðu Norðmenn á öllum hvalstöðvum, líka þeim sem voru í sameiginlegri eigu Dana og Íslendinga og í eigu Þjóðverja.

Var ekki verslun í kringum þessa starfsemi?

„Jú, hvalveiðimenn keyptu landbúnaðarvörur og annað, en svo voru samfelldar skipaferðir milli Íslands og annarra landa, sérstaklega Skotlands. Því fengu veiðimennirnir mikið af sínum nauðsynjum annars staðar frá.“
Ef frá eru talin Spánverjavígin voru samskipti Íslendinga og erlendra hvalveiðimanna yfirleitt mjög góð. Sérstaklega átti þetta við Norðmennina, frændur okkar, sem áttu mjög auðvelt með að laga sig að samfélaginu. „Þeir tóku þátt í ýmsum samfélagsverkefnum og veittu atvinnu upp að vissu marki. En vera þeirra setti mjög mikinn svip á þá staði þar sem hvalstöðvarnar voru. Þetta voru mikil umsvif og fyrsta vélvædda stóriðjan hér á landi.“ Flestir hvalir voru veiddir við Íslandsstrendur árið 1902, 1.305 talsins.

Töldu hvalinn aðstoða við síldveiðar

Hvalveiðar voru bannaðar með lögum árið 1913 og tók bannið gildi tveimur árum síðar. Meginástæðan fyrir banninu var sú að fólk trúði því að hvalirnir gegndu því hlutverki að reka fisk, sér í lagi síld, upp að landinu svo hann varð veiðanlegur. Kenningin hefur verið kölluð hvalrekstrarkenning og á sér enga stoð í vísindum.

„Menn trúðu þessu og ekki einungis hér á landi heldur í Noregi einnig. Þessi viðhorf voru í raun innflutt þaðan og margir lögðust hart gegn hvalveiðum vegna þeirra. Á Alþingi deildu þingmenn um hvort starfsemin ætti að vera leyfð og á endanum var samþykkt að banna hvalveiðar.“

Reyndar höfðu hvalveiðar verið á undanhaldi við Ísland áður en lögin voru sett og þegar bannið var samþykkt var einungis ein stöð enn í notkun. Ástæðan var sú að umsvifin höfðu færst að miklu leyti að suðurhveli jarðar. Til að mynda hafði Hans Ellefsen flutt sína miklu útgerð frá Mjóafirði suður til Suður-Afríku. Skoska fyrirtækið Salvesen, sem keypti hér fjórar stöðvar, flutti sína starfsemi til Falklandseyja og Suður-Georgíu.

Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915
Asknes í Mjóafirði 1904 Úr bókinni Stórhvalaveiðar við Ísland til 1915

Hvalur hf. tók við

Árið 1935 hófust hvalveiðar að nýju þegar Tálknfirðingar riðu á vaðið. Eftir það voru hvalveiðar við Ísland alfarið í höndum heimamanna. Árið 1948 hóf þekktasta hvalveiðiútgerð landsins, Hvalur hf., útgerð frá Hvalfirði og voru Norðmenn fengnir til að stýra tveimur af fjórum bátum félagsins. Hvalstöðin var reist þar sem áður var flotastöð á stríðsárunum og var hluti af mannvirkjum flotans nýtt.

Veiðarnar hjá Hval hf. gengu illa fyrstu árin en glæddust svo með betri bátum og breyttum veiðiaðferðum. Á áttunda áratugnum hófust mótmæli gegn hvalveiðum af umhverfis- og mannúðarástæðum og var veiðin loks bönnuð af Alþjóða hvalveiðiráðinu árið 1986. Árið 2003 hófust hvalveiðar á Íslandi á ný í vísindaskyni og í atvinnuskyni árið 2006. Vegna skorts á mörkuðum fyrir hvalaafurðir hætti Hvalur hf. veiðum árið 2016.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”

Siggi stormur óvenju bjartsýnn varðandi sumarið – „Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir þessu”
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur

Ógeðslegt athæfi – Pissaði í glas og skvetti á aðra áhorfendur
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara

Ofbeldismenn herja á starfsfólk Héraðssaksóknara
Pressan
Fyrir 10 klukkutímum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum

Leikfimiskennari sakaður um að taka nektarmyndir af yfir 100 stúlkum
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það

Setur glæsilegt hús sitt á sölu – Vill fá 800 milljónir fyrir það
Pressan
Fyrir 11 klukkutímum

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?

Varpa sprengju inn í Gilgo-morðmálið – Er lögreglan að fela eitthvað ?
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi

Miklar breytingar á enska bikarnum um næstu helgi – Ekki spilað í deildinni um sömu helgi
433Sport
Fyrir 13 klukkutímum

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona

Eiginkona Gundogan blandar sér í stríðið í klefanum hjá Barcelona