fbpx
Mánudagur 11.ágúst 2025
Fréttir

Ný íslensk rannsókn: Lögreglumenn verða ítrekað fyrir grófu ofbeldi við störf

Tobba Marinósdóttir
Sunnudaginn 21. júní 2020 10:30

8 af 10 lögreglumönnum sem rætt var við höfðu lent í ofbeldi. Mynd/Eyþór

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórunn Kristjánsdóttir er gift lögreglumanni sem varð fyrir mjög grófu ofbeldi í útkalli. Meistaraverkefni hennar í félagsfræði við Háskóla Íslands fjallar um upplifun lögreglumanna á streitu og ofbeldi.

„Hann fékk ekki mikinn stuðning í kjölfarið og það tók ekkert fastmótað við. Það er ýmislegt í boði en að koma upplýsingunum um hvað er í boði til lögreglumanna er mjög ábótavant. Eftirfylgnin er einnig mjög lítil.“

Eiginmaður hennar er enn lögreglumaður og segir Þórunn það hafa verið erfitt í kjölfar atviksins. „Ef ég sé eitthvað í fjölmiðlum um erfið útköll hugsa ég oft: Ætli hann hafi verið í þessu útkalli?“ segir Þórunn. Hún segir maka lögreglumanna leita í stuðning hver hjá öðrum en starfið hafi mikil áhrif á heimilislífið. Hún segir menninguna innan lögreglunnar hérlendis vera einstaka. „Ég upplifi hana jákvæða því innan lögreglunnar ríkir samheldni sem ég hef hvergi séð áður.“

Við vinnslu lokaverkefnis síns tók hún viðtal við 10 lögreglumenn og -konur um upplifun þeirra af starfi sínu með tilliti til streitu en um eigindlega rannsókn var að ræða.  Nöfnin sem gefin eru upp eru ekki rétt nöfn viðmælenda. Samkvæmt lögreglulögum nr. 90/1996 eru lögreglumenn bundnir þagnarskyldu í starfi og hafa því ekki frelsi til að tjá sig eða verja sig fyrir umfjölluninni sem skapast í samfélaginu eða í fjölmiðlum.

Viðmælendur Þórunnar lýstu því þannig að á meðan lögreglan er raddlaus þá geta allir aðrir látið gamminn geisa og þar af leiðandi haft áhrif á ímynd lögreglumanna. Í skrifum Þórunnar kemur einnig fram að lögreglumenn eiga það til að notast við svartan húmor sem sjálfsvarnarviðbrögð við andlegri vanlíðan. Ákveðin menning getur skapast innan lögreglunnar þar sem einstaklingum finnst þeir ekki geta rætt opinskátt um tilfinningar sínar og upplifun í starfi og grípi til þessara varnarviðbragða.

Við tóku sjö manns með vopn

Sex viðmælendur nefndu einhvers konar óöryggi sem streituvald en undir streitu flokkast meðal annars; óöryggi við að vita ekki hvað á að gera þegar komið er á vettvang, óskýrt verklag, hræðsla eftir útkall þar sem útkallið var mun stærra og veigameira en tilkynningin gaf til kynna og lögreglumenn eru stöðugt undir ámæli almennings.

Ingólfur lýsti fyrir Þórunni útkalli sem hann lenti í þar sem aðstæður voru mun verri en mat var lagt á þegar tilkynningin barst: „Þegar maður rýnir í hlutina eftir á. Eins og í sumar, þá fórum við í eftirlit í eina íbúð og það var bara eitt. Þegar við ruddumst inn var þar haglabyssa. Þá hugsar maður já okei, við vitum aldrei hvað maður er að fara inn í. Við fórum þarna þrjú saman en inni í íbúðinni voru þau sjö með vopn og fleiri vopn á efri hæðinni. Ég var aldrei öruggur í þessum aðstæðum en ég upplifði ekki óöryggi þegar ég var á staðnum.“

Í samtölum Þórunnar við viðmælendur sína kemur fram að ekki eru allir lögreglumenn og -konur sátt við aðbúnað lögreglunnar og var það einnig nefnt sem streituvaldur. Ingólfur lýsir því svo: „Öryggið er ekki neitt og mér finnst þarna verið að svína á lögreglumenn og það verður ekkert gert í þessu og við höfum bara séð það í okkar nágrannalöndum sko. Í Danmörku voru tveir lögreglumenn skotnir og þá var gert eitthvað í því.“

Tveir viðmælenda töluðu um að vilja bera frekari vopn eftir að hafa lent í útköllum þar sem gengið var inn í vopnaðar aðstæður. „Almennir lögreglumenn í dag eru í vesti með kylfu og piparúða. Það hefur komið upp sú umræða að vera með meiri vopn en ekki endilega skotvopn. Það vantar eitthvað þarna á milli. Það hafa verið nefndar rafbyssur,“ segir Þórunn.

Með tvo hnífa á lofti

Lilja nefndi það einnig að hún lenti í alvarlegu útkalli sem virtist ekki alvarlegt þegar það var kallað upp til lögreglu. En þegar hún mætti á svæðið mætti henni maður vopnaður tveimur hnífum og hljóp í áttina til hennar og félaga hennar. „Það var lukka að það gerðist ekkert meira í því máli. Það var ekkert annað en heppni. Þetta var á tímabili þar sem sérsveitin var vopnuð út af hryðjuverkaógn og við vorum send í þetta útkall sem var mjög óskýrt og það var fyrir þess sakir að metnaðarfullir sérsveitarmenn á vakt kalla og spyrja hvort við viljum fá þá með. Það var ekkert sem benti til þess að við þyrftum að fá þá með. Svarið okkar var hikandi en við þáðum aðstoðina. Og við lendum í þessu, fáum mann hlaupandi til okkar með tvo hnífa á lofti. Og maður spyr sig alveg, hvað ef þeir hefðu ekki komið? Hvað ef þeir hefðu ekki verið betur búnir en við?“

Níu af tíu viðmælendum í verkefninu vilja að embættin kæri þegar lögreglumenn verða fyrir ofbeldi svo einstaklingarnir þurfi ekki að eiga við afleiðingar vinnunnar sinnar í einkalífi sínu. Þar af var einn viðmælandi sem slasaðist það alvarlega að hann varð óstarfhæfur í kjölfar atburðarins og annar sem er enn verkjaður eftir atburð sem átti sér stað fyrir tæpum 20 árum.

Dreifbýlislöggur oft einar á vakt

Í verkefninu kemur Þórunn einnig inn á mismunandi vinnustíl og menningu lögreglufólks sem starfar úti á landi. „Þeir lögreglumenn sem vinna í dreifbýli segja að það eitt að starfa á stóru landsvæði og í litlum bæjum þar sem allir þekkja alla valdi þeim streitu. Í dreifbýli viðgengst svokallaður sveitalöggustíll þar sem þeir þurfa að temja sér auðmjúkan vinnustíl og þar kemur meðal annars inn í að nota orð sín sem vopn ásamt því að þjónustuhlutverk dreifbýlislögreglunnar virðist vera meira en annars staðar,“ segir Þórunn.

Á Íslandi birtist þetta í þeirri mynd að einhver embætti sinna til dæmis þrifum eftir sjálfsvíg og skutla ölvuðum ökumönnum langar vegalengdir heim. „Það er bæði bölvun og blessun að þekkja nær alla í umdæminu að þeirra sögn,“ segir Þórunn.

Einn viðmælenda, Katla, lýsir þessu vel. „Það er enginn greinarmunur gerður á lögreglugallanum og síðan gallabuxunum þínum.“ Samfélagsþegnar í dreifbýli virðast halda að aðgengi að lögreglumönnum sé mikið því samfélagsþegnarnir vita gjarnan hvar þeir eiga heima eða hafa símanúmerin þeirra og hafa þá samband beint við þá í stað þess að hringja í neyðarlínuna. „Þú færð símhringingar, sms, messenger og bara hvað sem er allan sólarhringinn sko.“

Dreifbýlislögreglumenn lenda frekar í því að vera einir á vakt heldur en lögreglumenn sem starfa í borginni. Einn kvenkyns viðmælendanna nefndi það sem einn helsta streituvaldinn í sínu starfi og lýsir því svona í samtali við Þórunni: „Við erum náttúrlega fá og ég hef þurft að standa margar vaktir ein. Við unnum á tímabili ein hérna. Það er streita í því. Maður var með allt í gangi í hausnum, já maður var að byggja sig upp ef eitthvað mundi gerast og þá vildi maður ekki klúðra neinu sko. Svo hefur maður bara lent í því að vera kallaður út og vera einn og það er engin bakvakt eða neitt og fara í [hik] já fara ein og slást. Kannski líkamsárás eða ölvunarakstur og kannski fjórir á móti mér einni.“

Hrækti blóði í auga lögreglumanns

8 af 10 viðmælendum segjast hafa orðið fyrir ofbeldi í starfi. Einn þeirra, ungur lögreglumaður sem kallaður er Jónas í ritgerðinni, segist ítrekað hafa orðið fyrir ofbeldi. Það alvarlegasta varð til þess að hann glímdi við áfallastreituröskun en þá var ráðist á hann á vaktaskiptum og hann stunginn með notaðri sprautunál. Í öllum þeim atvikum sem hann hafði lent í var kært, í stungumálinu þurfti hann að kæra sjálfur vegna þess að hann var á vaktaskiptum.

Annað dæmi er tekið þar sem viðmælandi fékk spark í andlitið. „Já, það var sparkað í andlitið á mér við handtöku og ég fékk eymsli í kjálkann sem ég er enn að eiga við. Þetta var árið 2003. Þetta er enn að plaga mig af og til, sérstaklega ef ég er þreyttur en þá þarf ég að smella kjálkanum aftur í lið svo að hann stoppi.“

Dæmin eru mun fleiri. Vilhjálmur hafði lent í hnoði í vinnunni en nefnir engin alvarleg ofbeldisverk. Þó hefur hann lent í þremur stunguóhöppum. Stunguóhapp er þegar lögreglumaður fær á sig líkamsvessa úr einstaklingi og þarf að fara í ýmisleg próf til að útiloka að hann hafi smitast af einhverjum sjúkdómum. „Já, ég hef þrisvar sinnum lent í þannig scenario, þar sem maður þarf að undirgangast ferli til að athuga hvort maður sé með smit eða þó svo að líkurnar séu nánast engar þá er þetta svona.“ Í einu tilfellanna var þetta skilgreint sem árás á lögreglumann vegna þess að það var ásetningur einstaklings þar sem hann hrækti blóði í augun á Vilhjálmi.

Harðræði lögreglu

Mikið hefur verið rætt um harðræði lögreglu við handtökur á síðastliðnum árum. Viðmælendur voru flestallir sammála um að samtal sé besta vopnið sem lögreglan á í vopnabúrinu. Flóki lýsti þessu svona: „Nei, ég hef ekki lent í því sko. Ég er svona frekar hlynntur því að maður reyni frekar að eyða 20 mínútum eða hálftíma í að tala viðkomandi til ef maður hefur tíma til, sem er oft hérna í embættinu mínu, heldur en að vera að standa í einhverju valdbeitingardæmi sko. Hún á bara að vera seinni kosturinn þú veist, sem vægust sko.“

Viðmælendur voru spurðir út í hvort þeir hefðu einhvern tímann upplifað sig beita harðræði við valdbeitingu í starfi. Ekkert þeirra sagðist hafa upplifað það, en átta sögðust hafa orðið vitni að því að félagi eða annar lögreglumaður á vettvangi hafi gengið of langt eftir mikil átök. Flestir lýstu því þannig að þeir hafi skilið heiftina sem var í gangi, en Lilja lýsti því svona: „Ég held að viðkomandi hafi alveg áttað sig á að hann hafi orðið of reiður. Ég þurfti ekki að segja neitt. Stundum dugar bara að segja: heyrðu, ég er með hann.“

Inga hafði þó orðið vitni að harðræði sem hún lýsti svona: „Það var þannig að það var handtaka og hann var búinn að setja hann í jörðina og var búinn að setja á hann handjárn og festa hann en hann heldur áfram að berja hann með kylfunni. Mér fannst þetta ekki viðeigandi.“ Þeir sem höfðu orðið vitni að því að annar lögreglumaður gengi of langt við valdbeitingu sögðust hafa nefnt það við einstaklingana eftir á. Flestir taka vel í það þegar þeim er bent á að þeir hefðu getað slakað á örlítið fyrr, en þegar Gunnhildur var spurð hvað hún gerði í kjölfar svona atvika svaraði hún: „Ef þér finnst einhver fara yfir strikið, þá fer líka eftir því hver það er. Ef þetta er einhver sem er eldri en þú þá er ekki að ræða það en ef að þetta er einhver nemi eða einhver undir þér finnst mér meiri líkur á að það sé rætt við viðkomandi eftir á. Ef það er einhver með meiri reynslu en þú þá er það mjög viðkvæmt.“

Þolendarannsóknir lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sýna að ofbeldi í garð lögreglumanna eykst með árunum og verður eflaust seint útrýmt því það hefur viðgengist frá upphafi. Harðræði lögreglumanna verður líklega ekki útrýmt heldur, en Jónas lagði þetta til málanna þegar rætt var um harðræði lögreglumanna: „Sko, menn gera mistök og það eru til menn sem ganga of langt. Það eru svartir sauðir í öllum stéttum en ég held að heilt yfir séum við ekkert vondir sko. Ég held það.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Vilhjálmur segir að þessi aðgerð geti lækkað vexti á Íslandi hratt – Hafa stjórnvöld kjarkinn?

Vilhjálmur segir að þessi aðgerð geti lækkað vexti á Íslandi hratt – Hafa stjórnvöld kjarkinn?
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum

Hlutfallslega miklu fleiri erlendir ríkisborgarar á Íslandi en öðrum Norðurlöndum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt á suðupunkti eftir að Ísraelsmenn tilkynntu að þeir ætli að taka yfir Gaza

Allt á suðupunkti eftir að Ísraelsmenn tilkynntu að þeir ætli að taka yfir Gaza
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns

Sérfræðingur veltir fyrir sér hvort þetta sé arftaki Pútíns
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Íslenskir neytendur óskuðu eftir endurgreiðslu vegna flugs – Áttuðu sig síðan á þessum mistökum

Íslenskir neytendur óskuðu eftir endurgreiðslu vegna flugs – Áttuðu sig síðan á þessum mistökum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar

Lögreglan rifjar upp rán í Útvegsbanka árið 1975 – Einn ræningjanna létti á samvisku sinni í sumar
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“

Segir samráðsleysi við íbúa Ölfuss algjört – „Þögn er sama og samþykki“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“

Ragnar segir fólk flykkjast í Reynisfjöru: „Þetta hefur alltaf verið svona þegar verður slys“