fbpx
Þriðjudagur 19.október 2021
Fréttir

Hinn ógnarsterki Matteo Salvini

Kristján Kristjánsson
Laugardaginn 3. nóvember 2018 23:00

Matteo Salvini Liggur ekki á skoðunum sínum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Matteo Salvini er áberandi í ítölskum og evrópskum stjórnmálum nú um stundir. Hann er innanríkisráðherra Ítalíu og aðstoðarforsætisráðherra landsins. Hann liggur ekki á skoðunum sínum og hefur gengið harkalega fram í umræðunni um flóttamannamálin og meðal annars bannað skipum, sem hafa bjargað flóttamönnum á Miðjarðarhafi, að leggjast að bryggju á Ítalíu. ESB er einn höfuðandstæðingur hans en þannig hefur það ekki alltaf verið. Salvini hefur verið virkur í stjórnmálum síðan snemma á tíunda áratugnum. Þá var ESB ofarlega á vinsældalista hans og hann vildi nota ESB sem efnahags- og siðferðislega lyftistöng fyrir Ítalíu. En nú rignir fjandskapnum nánast daglega yfir ESB í færslum hans á Twitter og Facebook. Hann hvetur Ítali til að standa saman.

„Látum ríkisstjórnina vinna fyrir Ítali,“ segir hann meðal annars í tengslum við deilurnar um fjárlög ítölsku ríkisstjórnarinnar en framkvæmdastjórn ESB hefur hafnað fjárlögunum og segir þau brjóta gegn reglum ESB. Hvort sem það verður Salvini eða ESB sem hefur betur í þessari deilu þá stendur Salvini uppi með pálmann í höndunum. Ef ESB sigrar getur hann sagt að skriffinnarnir í Brussel eigi sök á því að ekki sé hægt að efna dýr kosningaloforð eins og að lækka eftirlaunaaldur og skatta. Ef Ítalir sigra stendur hann uppi sem sigurvegarinn, hinn sterki maður sem sigraði alþjóðlega valdið. Sama hvor niðurstaðan verður ofan á, hún gefur honum frábært tækifæri til að undirbúa næsta verkefni sem er að safna þeim evrópsku flokkum, sem eru fullir efasemda um ágæti ESB, saman og gera þá áhrifamikla í Brussel.

Salvini er 45 ára, fæddur í Mílanó. Hann lauk stúdentsprófi og starfaði sem blaðamaður. Hann hefur verið félagi í Lega síðan 1990 og formaður flokksins síðan 2013. Fyrsta pólitíska embætti hans var þegar hann var kosinn í borgarstjórn í Mílanó 1993. Hann var kjörinn á þing 2008 og hefur setið á Evrópuþinginu.

 

Pútín og Trump eru fyrirmyndir

Vladimír Pútín Rússlandsforseti og Donald Trump Bandaríkjaforseti eru fyrirmyndir Salvinis í pólitík. Lega hefur gert vináttusamning við flokk Pútíns og Rússar hafa boðið Ítölum fjárhagslega aðstoð vegna mikilla opinberra skulda landsins en þær nema 130 prósentum af vergri þjóðarframleiðslu. Lánshæfismat landsins er ekki hátt og nú hefur framkvæmdastjórn ESB hafnað fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Meðal annarra vina Salvinis eru Marine Le Pen, formaður National Rally, sem hét áður Front National, í Frakklandi, og Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, en þau eru bæði langt til hægri í stjórnmálum og hafa sama markmið og Salvini, að breyta jafnvæginu í framkvæmdastjórn ESB og koma fleiri íhaldsmönnum að í stað jafnaðarmanna.

Margir Ítalir segja að Salvini sé í raun og veru forsætisráðherra landsins þrátt fyrir að Giuseppe Conte gegni því embætti. Hinn aðstoðarforsætisráðherrann, Luigi di Maio úr Fimmstjörnuhreyfingunni, virðist heldur ekki eiga séns í Salvini. Hann dregur nær alla athyglina að sér og virðist að vissu leyti marka stefnu ríkisstjórnarinnar.

Salvini prýddi forsíðu Time í september en blaðið sagði hann vera hið „Nýja andlit Evrópu“. Í langri grein var reynt að útskýra af hverju svo margir óttast hann. BBC var með mikla umfjöllun um hann í ágúst. Salvini er því kastljósi fjölmiðla og er óumdeilanlega sterkasti ítalski stjórnmálamaðurinn þessa dagana.

 

Lega
Fylgið hækkað úr 4 prósentum í 30 undir stjórn Salvinis.

Reif fylgi Lega upp

Þegar hann tók við formennsku í Lega 2013 mældist fylgi flokksins aðeins 4 prósent, en spilling og frændhygli hafði gengið nærri flokknum og stofnanda hans, Umberto Bossi. Í kosningunum í mars á þessu ári fékk flokkurinn 17,4 prósent atkvæða.

Fimmstjörnuhreyfingin, sem er stærsti flokkur ríkisstjórnarinnar, hefur misst fylgi undanfarið en það mælist nú tæplega 30 prósent. Á sama tíma hefur Lega aukið fylgi sitt og mælist það nú 30,4 prósent. Í heildina styðja um 60 prósent kjósenda þessa tvo flokka sem verður að túlka sem breiðan og góðan stuðning.

Það er auðvitað ekkert nýnæmi á Ítalíu að sterkir stjórnmálamenn séu mikið í sviðsljósinu og njóti mikils fylgis. Silvio Berlusconi er eitt dæmi um slíkan stjórnmálamann en hann kom fram á sjónarsviðið í stjórnmálum 1992 þegar ítalska stjórnmálakerfið hrundi. Í nóvember 2011 var Mario Monti, úr framkvæmdastjórn ESB, settur sem einhvers konar embættismaður í stól forsætisráðherra til að reyna að bjarga Ítalíu en þá var Berlusconi langt kominn með að keyra landið í efnahagslegt þrot.

Í kosningunum 2013 tapaði flokkur Montis síðan miklu fylgi og fékk tæplega 10 prósent atkvæða. Margir sérfræðingar telja að þessi örlög muni ekki bíða Salvinis. Hann hafi verið í stjórnmálum síðan 1993 en hafi tekist að markaðssetja sig sem „nýjan mann“ og ekki síst manninn sem ætli að takast á við versta ótta Ítala, flóttamenn. Enda hefur Salvini rekið harða og ósveigjanlega stefnu í málefnum flóttamanna eins og fyrr greinir. Þá hefur hann verið sakaður um að kynda undir rasisma.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 4 dögum

Einar gekk hart að Þórólfi í Kastljósi: Þórólfur skellir skuldinni á Svandísi – „Það er ekki ég sem geri þetta“

Einar gekk hart að Þórólfi í Kastljósi: Þórólfur skellir skuldinni á Svandísi – „Það er ekki ég sem geri þetta“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Föðurbróðir ráðherra finnst ekki – Fjölskylduerjur leiða til dómsmáls um innbrot

Föðurbróðir ráðherra finnst ekki – Fjölskylduerjur leiða til dómsmáls um innbrot