Fyrirtækið Carbfix stefnir á að koma upp móttöku- og geymslustöð fyrir koltvísýring, sem einnig nefnist koldíoxíð, í landi sveitarfélagsins Ölfuss. Í stöðinni verður koltvísýringur bundinn í jörð en samkvæmt matsáætlun um umhverfisáhrif, sem lögð hefur verið fram til kynninga í skipulagsgátt, er stefnt á að magnið verði allt að þrjár milljónir tonna. Stöðin verður í fimm kílómetra fjarlægð frá íbúðabyggð og fullyrt er í áætluninni að áhrif hennar á loftgæði á svæðinu verði takmörkuð.
Carbfix er fyrirtæki í eigu Orkuveitu Reykjavíkur sem hefur unnið að þróun niðurdælingar á koldíoxíði í jörð hér á landi meðal annars með innflutningi á efninu frá öðrum löndum. Verkefnið hefur gengið undir nafninu Coda Terminal en fyrirtækið sneri sér til Ölfuss eftir að hafa hætt við að koma upp sams konar stöð fyrir verkefnið í Straumsvík í Hafnarfirði. Var það gert í kjölfar harðar mótspyrnu fjölda bæjarbúa og efasemda bæjaryfirvalda sem lýstu yfir áhyggjum af umhverfisáhrifum Coda Terminal en Carbfix vildi meina að slíkar áhyggjur væru óþarfar.
Raunar er matsáætlunin lögð fram í nafni Coda Terminal hf. sem er í eigu Carbfix.
Í kynningunni í Skipulagsgátt segir að stöðin nefnist Coda stöðin. Í henni verði tekið á móti koldíoxíð straumi sem fangaður sé úr iðnaðarútblæstri í Norður-Evrópu og dælt niður til varanlegrar geymslu í landi Nessands í Ölfusi með Carbfix tækninni.
Áætlað sé að binda allt að þrjár milljónir tonna af koldíoxíði á ári í Coda stöðinni í fjórum áföngum með því að nýta Carbfix tæknina. Koldíoxíð verði flutt hingað til lands á fljótandi formi með sérhönnuðum skipum og verði innviðir til staðar á höfninni á svæðinu fyrir landtengingu skipanna. Jafnframt verði mögulegt að dæla niður koldíoxíði sem fangað sé beint úr andrúmslofti og frá innlendum iðnaði.
Undirbúningur framkvæmdarinnar hafi byrjað í upphafi árs 2025 með forhönnun, samtali við hagsmunaaðila og vinnu við leyfisferla, en gert sé ráð fyrir að rannsóknarboranir fari fram haustið 2025. Áætlað sé Coda stöðin verði byggð upp í áföngum en gert sé ráð fyrir að rekstur geti hafist árið 2029 og að stöðin verði fullbyggð árið 2034. Gert sé ráð fyrir að stöðin muni taka við og binda varanlega allt að þrjár milljónir tonna af koldíoxíði árlega á þrjátíu ára líftíma stöðvarinnar. Rannsóknir og eftirlit Carbfix muni halda áfram á svæðinu á framkvæmda- og rekstrartíma.
Í matsáætluninni kemur fram að fyrirhugað framkvæmdasvæði í Ölfusi, sé á milli Selvogs og Þorlákshafnar. Þorlákshöfn sé næsta íbúðabyggð við framkvæmdasvæðið og sé í um fimm kílómetra fjarlægð. Segir að í Ölfusi sé að finna hentugar aðstæður fyrir móttöku og geymslu koldíoxíðis. Þar séu jarðlög sem hafi þann eiginleika að stuðla að öruggri og áreiðanlegri geymslu koldíoxíðs.
Í matsáætluninni er nokkur grein gerð fyrir mögulegum umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar en áætlunin er undanfari skýrslu um mat á umhverfisáhrifunum en ætlunin er að kanna þau frekar og eins og áður segir verður fyrst ráðist í rannsóknarboranir, en í áætluninni segir að markmiðið með þeim sé að meta frekar möguleg áhrif á fyrirhugað framkvæmdasvæði.
Í matsáætluninni segir meðal annars að áhrif framkvæmdanna á jarðlög og gróður- og vatnafar á svæðinu verði könnuð frekar en hins vegar segir að ekki sé talin þörf á því að fjalla frekar um fuglalíf þar sem framkvæmdir muni skerða tiltölulega lítinn hluta búsvæða fugla auk þess sem svæðið sé fjarri mikilvægum fuglasvæðum samkvæmt kortlagningu Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Enn fremur segir að út frá niðurstöðum umhverfismats sem var unnið fyrir Coda stöð í Straumsvík sé ekki talin þörf á því að meta áhrif framkvæmdarinnar á staðbundin loftgæði. Í Straumsvík hafi áhrifin á loftgæði verið metin óveruleg þar sem Coda stöð sé ekki talin hafa nein áhrif á staðbundin loftgæði og áhrif sjóflutninga og tengdra
framkvæmda hafi verið metin minniháttar. Líkt og í Straumsvík séu veðuraðstæður á svæðinu heppilegar með tilliti til dreifingar á hugsanlegri loftmengun þar sem algengustu vindáttir blási mengunarefnum af landi og út á sjó. Samráð verði haft við Umhverfis- og orkustofnun og sveitarfélagið Ölfus um hvernig best sé að standa að vöktun vegna áhrifa skipaumferðar á loftgæði.
Matsáætlunina er hægt að kynna sér nánar hér.