Þegar Trump ávarpaði bandarísku þjóðina í mars, sýndi hún stuðning sinn við hann frá áheyrendasvæðinu í þinghúsinu með því að vera með rauða MAGA-derhúfu með textanum „Trump was right about everything!“
En nú er þessi umdeilda þingkona Repúblikana „pirruð“ og „æst“ yfir því sem hún segir vera fjölda svikinna kosningaloforða Trump og stjórnar hans.
„Ég er fulltrúi baklandsins og þegar ég er pirruð og æst yfir því hvaða stefnu málin hafa tekið, þá ættir þú að átta þig á að baklandið er ekki ánægt,“ skrifaði hún í langri færslu á X um helgina.
Hún segist síðan vera mjög ósátt við yfirvofandi stríð við Íran. Auðlindasamninginn við Úkraínu. Bóluefni gegn Covid-19 og „árásir transfólks á börnin okkar“. Hún segir að stjórn Trump hafi svikið kjósendur sína þegar kemur að þessum málaflokkum.
Hún er þekkt stuðningskona ýmissa klikkaðra samsæriskenninga og er alfarið á móti bólusetningum. Hún telur að hægt sé að stjórna veðrinu og að Demókratar hafi sent fellibylinn Helene til að koma í veg fyrir að kjósendur á svæðum, þar sem Repúblikanar eru í meirihluta, gætu kosið í forsetakosningunum.
Hún hefur einnig lýst yfir andúð sinni á gyðingum og sagt sumar skotárásir í bandarískum skólum hafa verið sviðsettar.